Danska ríkisútvarpið segir að Bennicke, sem hefur augun alltaf opin fyrir steingervingum, hafi fundið undarlega hrúgu af beinum í steini sem hann fann við Stevns Klint. Í fyrstu taldi hann að þetta væri ekki ýkja merkilegt.
„En þegar ég sat og skoðaði þetta, varð skýrara og skýrara að þetta gæti verið spennandi steingervingur,“ sagði hann.
Hann fór því með hann til Geomuseum Faxe þar sem steinninn var hreinsaður og rannsakaður.
Þetta reyndist vera æla úr fiski sem hafði étið sæliljur og síðan kastað þessari ómeltanlegu máltíð upp. Ælan er 66 milljóna ára gömul. Sem sagt frá því áður en risaeðlurnar dóu út.
Jesper Milán, safnstjóri Geomuseum Faxe, sagði þetta vera mjög spennandi fund og að við getum lært margt af ælunni. „Við getum lært hvaða dýr voru í sjónum á þessum tíma og hvernig þau lifðu og hvað þau átu,“ sagði hann.