AC Milan hefur náð samkomulagi við Chelsea um lán á Joao Felix til Ítalíu út leiktíðina. Frá þessu greina helstu miðlar.
Fyrr í dag var greint frá því að Felix hefði samþykkt tilboð Milan og að umboðsmaður hans Jorge Mendes væri að reyna að koma skiptunum í gegn fyrir lok félagaskiptagluggans í kvöld.
Nú er það að takast. Fer Portúgalinn á láni til Milan út þessa leiktíð, án kaupmöguleika í sumar þó. Það kostar ítalska félagið um 5 milljónir punda að fá Felix, en það greiðir laun hans á meðan lánsdvölinni stendur.
Felix hefur fengið fá tækifæri í deildinni eftir að hann kom til Chelsea í sumar en verið mikið í liðinu í Sambandsdeildinni.
Felix er 25 ára gamall en AC Milan er að selja Noah Okafor til Napoli og þar með myndast pláss fyrir Felix.