Á köldu desemberkvöldi árið 1996 setti Celina Janette Mays leirtauið sitt í vaskinn, kyssti fjölskyldu sína góða nótt og fór að sofa. Að sögn fjölskyldu hennar var kvöldið í engu frábrugðið öðrum kvöldum hjá fjölskyldunni, rólegt og eðlilegt, og ekkert í fari Mays grunsamlegt. Þessa nótt hvarf Mays frá heimili sínu í Willingboro, New Jersey, og ekkert hefur spurst til hennar síðan.
Þrátt fyrir að Mays væri aðeins 12 ára var hún gengin nær fulla meðgöngu og tvær vikur voru í settan dag. Hún hafði krafist þess að halda deili á föðurnum leyndu og sumir fjölskyldumeðlimir hennar töldu að hún hefði einfaldlega strokið að heiman svo ekki væri hægt að framkvæma faðernispróf á barninu hennar. Aðrir telja að henni hafi verið rænt, hugsanlega af fjölskyldumeðlimi. Og enn þann dag í dag grunar lögregluna að kirkjan sem fjölskylda Mays sótti gæti hafa átt þátt í hvarfi hennar.
Daginn sem Mays hvarf fór hún í kirkju með fjölskyldunni, borðaði kvöldmatinn með þeim og naut þess að fá ís í eftirrétt. Hún fór að sofa um klukkan ellefu um kvöldið og kyssti alla í fjölskyldunni góða nótt áður. Morguninn eftir fór fjögurra ára stjúpsystir Mays inn í herbergi hennar til að vekja hana, en kom að tómu rúmi.
Púðum Mays og teppi hafði verið komið þannig fyrir að það leit út fyrir að hún lægi í rúminu. Allir persónulegir munir hennar voru á sínum stað. Hún hafði ekki tekið neitt með sér, ekki einu sinni veskið eða vítamínin sem hún var að taka á meðgöngunni.
Þann 17. desember hringdi faðir Mays í lögregluna til að tilkynna hvarf hennar. Fjölskylda Mays sagði lögreglunni að hún hefði ekki tekið eftir neinu grunsamlegu nóttina sem hún hvarf. Stjúpmóðir Celinu, Evette Mays, rifjaði þó upp að hún hefði sagt „Takk fyrir allt“ áður en hún fór að sofa. Eftir á að hyggja datt fjölskyldunni í hug að þetta hafi verið hennar leið til að kveðja.
Í margar vikur leitaði lögreglan í Burlington-sýslu að Mays og bað samfélagið um að senda inn ábendingar. Aðeins örfáar ábendingar bárust en ekkert hald var í þeim.
Þegar nær leið að settum fæðingardegi jukust áhyggjur lögreglunnar af öryggi hennar, en sökum aldurs hennar myndi hún líklega þurfa á keisaraskurði að halda. Lögreglan hafði samband við sjúkrahús í nágrenninu til að athuga hvort May hefði verið lögð inn, en enginn kannaðist við það.
Yfirvöld hafa í gegnum árin fengið meira en 250 ábendingar í máli Mays. Í janúar 1997 kom fram trúverðug ábending þegar eigandiveitingastaðar í Howell, New Jersey, greindi frá því að hafa séð Mays á staðnum. Sagði hann að stúlkan hefði verið í félagsskap prests og nokkurra annarra. Hann sagði einnig að hún liti ekki út fyrir að vera ólétt.
Rannsókn leiddi hins vegar fljótt í ljós að stúlkan var ekki Mays. Lögreglan var því aftur á byrjunarreit.
Mays fæddist í Miami, Flórída árið 1984 og flutti með foreldrum sínum, C.J. Mays og Lynn Vitale, til Palmyra, New Jersey árið 1986. Árið 1994 lést móðir Mays. Hörð forræðisbarátta varð milli fjölskyldu Vitale og föður Mays um forræði hinnar tíu ára gömlu Celinu.
Greint var frá því C.J. Mays ætti sakaferil frá tíma sínum í Flórída þar sem fíkniefnaneysla og heimilisofbeldi kom við sögu og fjölskylda Vitale notaði sakaferil hans til að halda því fram að hann væri óhæfur faðir. Hins vegar fullyrti C.J. að hann væri betri og bættari maður. Á endanum fékk C.J. forræði yfir dóttur sinni og hún flutti inn á heimili hans í rólegu úthverfi Willingboro, þar sem þau bjuggu með stjúpmóður Celinu og nokkrum öðrum fjölskyldumeðlimum.
Eftir hvarf Mays gengu ásakanir á víxl milli móðurfjölskyldu hennar og föðurfjölskyldu sem sökuðu hvor aðra um að hafa eitthvað með hvarf stúlkunnar að gera. Móðurfjölskyldan sakaði föðurfjölskylduna um að fela hana. Föðurfjölskyldan hélt fram sakleysi sínu og sakaði síðan móðurfjölskylduna um að hafa rænt Mays vegna þess að þau vildu enn fá forræði yfir henni.
Að sögn lögreglunnar voru margir fjölskyldumeðlima Mays ósamvinnuþýðir meðan á rannsókninni stóð. Auk þess sem dómari féllst ekki á leitarheimild á heimili Mays.
Á þeim árum sem liðin eru frá hvarfi Mays hafa margir fjölskyldumeðlima hennar látist, þar á meðal faðir hennar, C.J. Mays og frænka hennar Cerita Smith, sem var yfir söfnuðinum sem fjölskyldan tilheyrði.
Lögregluna hefur lengi grunað að kirkjan sem Mays fjölskyldan tilheyrði gæti hafa haft eitthvað með hvarf Mays að gera.
Eftir að fjölskyldan flutti til New Jersey gekk C.J. Mays til liðs við kirkju sem ber nafnið Gospel of Christ Ministry og fljótlega varð öll fjölskyldan að gerast meðlimir safnaðarins. Í stað þess að Mays gengi í almennan skóla ákvað C.J. að sjá um heimakennslu hennar sem fór fram í kirkjunni.
Mays virtist njóta sín í söfnuðinum og söng í kór hans. Trú gegndi mikilvægu hlutverki í lífi hennar og gæti það hafa verið ástæðan fyrir því að fjölskylda hennar íhugaði aldrei að láta hana gangast undir þungunarrof, þrátt fyrir ungan aldur hennar. Vegna þess að Mays varði svo miklum tíma í kirkjunni, voru margir á því að barnsfaðir hennar hlyti að vera safnaðarmeðlimur líka. Mays var staðráðin í að halda nafni hans leyndu. C.J. hélt því fram að Mays hefði aðeins sagt honum að hann væri 16 ára drengur sem væri ekki meðlimur í söfnuðinum. C.J. greindi einnig frá því að Mays hefði komist í uppnam þegar henni var sagt að blóðprufa gæti ákvarðað faðerni barnsins. C.J. taldi að dóttir hans hefði líklega látið sig hverfa til að viðhalda leynd faðernis barns hennar.
Eftir hvarf Mays fóru sögusagnir á kreik um aðkomu kirkjunnar að hvarfinu. Frænka Mays, Cerita Smith, stjórnaði söfnuðinum. Fyrir hvarf Mays höfðu fyrrum safnaðarmeðlimir kvartað undan því að Smith stjórnaði kirkjunni með „valdsmannslegum stíl“. Eftir hvarf Mays héldu margir því fram að Smith virtist stjórna öllum þáttum í lífi Mays fjölskyldunnar. Rannsakendur hafa greint frá því að margir meðlimir safnaðarins hafi neitað að vinna með lögreglunni eftir hvarf Mays og Smith hafi hafnað beiðni lögreglu um að leita í kirkjunni.
Enn þann dag í dag er ekki vitað hvað varð um Celinu Mays eða barn hennar. Margir af þeim sem komu að málinu eru látnir og söfnuðurinn hefur verið lagður niður. Næstum 30 árum eftir hvarf hennar hefur lögreglan þó ekki gefið upp alla von.
Árið 2021 gaf lögregludeild Willingboro yfirlýsingu málið.
„Árið 1996 höfðum við takmarkað fjármagn til að hafa samskipti við almenning og afla upplýsinga um týnda einstaklinga. Samfélagsmiðlar hafa þróast mikið og geta nú náð til margra á stuttum tíma. Við erum að nota samfélagsmiðla til að dreifa upplýsingum um Mays til að vekja athygli á máli hennar. Við erum vongóð um að samfélagsmiðlar verði gagnlegt tæki til að finna nýjar upplýsingar um hvarf Celinu Mays.“
Rannsakendur gruna enn að það kunni að vera tengsl á milli hvarfs Mays og söfnuðarins sem hún tilheyrði.
„Við erum með margar kenningar,“ sagði einkaspæjarinn Monica Pogorzelski við CBS News árið 2022 og tók fram að verið væri að rannsaka ýmsar vísbendingar. „Við erum að vona að hún sé á lífi og að við getum fundið hana.“