Kona stefndi ríkinu vegna handtöku en mál gegn henni var fellt niður. Var hún grunuð um að aka bíl undir áhrifum kannabis en lyfjapróf sem hún gekkst undir leiddi hið gagnstæða í ljós.
Atvikið átti sér stað þann 16. ágúst árið 2021. Lögregla stöðvaði bíl sem stefnandi í málinu var að aka. Konan var ökumaður bílsins en með henni í bílnum var kærasti hennar.
Konan framvísaði gildu ökuskírteini til lögreglu. Lögregla spurði hana hvort hún væri undir áhrifum kannabisefna en hún neitaði því. Aðspurð sagðist hún ekki hafa neytt kannabisefna þennan dag né daginn áður. Lögreglu þóttu þau svör ekki sannfærandi og var hún handtekin vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, meðal annars vegna þess að kannabislykt var í bílnum.
Var konan flutt á lögreglustöðu og lét hún umbeðin í té þvagsýni. Niðurstöður fíkniefnaprófs voru neikvæðar. Þess skal getið að kærasti konunnar var undir áhrifum kannabisefna en parið á barn saman. Lögregla sendi tilkynningu til barnaverndar um atvikið.
Konan stefndi ríkinu og krafðist miskabóta vegna ólöglegrar handtöku. Einnig sagði hún lögreglu hafa aukið á miska sinn með því að tilkynna málið til barnaverndar.
Konan krafðist 500 þúsund króna í miskabætur. Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Viðurkenndi dómurinn bótaskyldu ríkisins í málinu og dæmdi konunni 100 þúsund krónur í bætur. Málskostnaður fellur niður.
Dóminn má lesa hér.