Það var mikið um dýrðir og margt um manninn við lokaathöfn alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg á laugardag. Hápunktur athafnarinnar var þegar dómnefndin tilkynnti að íslenska kvikmyndin, Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson, hefði hlotið hin virtu Dragon Award, sem eru aðalverðlaunin á hátíðinni. Verðlaunaféð er með þeim hæstu í kvikmyndageiranum, rétt rúmlega fimm milljónir króna.
Heather Millard framleiðandi myndarinnar veiti verðlaununum viðtöku og þakkaði í ræðu sinni öllum þeim sem komu að gerð myndarinnar og gerðu hana að veruleika.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri var veðurtepptur á Íslandi og komast því ekki á lokahóf hátíðarinnar.
„Kvikmyndir eru teymisvinna og hef ég verið lánsamur í gegnum tíðina að vinna með frábæru fólki. Ég er stoltur af þeim og því sem við höfum áorkað saman. Íslensk kvikmyndagerð hefur verið á miklu skriði og hefur það aðeins geta gerst vegna þess að jarðvegurinn, sem varð til við samvinnu ráðamanna, einkaaðila og listafólks, er til staðar. En nú eru blikur á lofti og ef kvikmyndasjóður verður fjársveltur næstu ár að þá mun þetta mikla uppbyggingarstarf fara í súginn. Vona að ný ríkisstjórn vindi ofan af þessari þróun,“ segir Rúnar.
Í ígrundun dómnefmdar kom fram að að Ljósbrot hafi hrifið þau með meistaralega nákvæmri leikstjórn, næmni og fínlegum léttleika sem og óvænt upplífgandi lýsingu leikstjórans á sorginni. Örugglega komið til skila af ungum og fullkomlega samsettum leikarahóp.
Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er helsta kvikmyndahátíð Norðurlandanna. Árlega sækja á annað þúsund fagaðilar úr alþjóðlegum heimi kvikmynda hátíðina og gestir á sýningum eru á annað hundrað þúsund talsins.
Þetta eru fjórtándu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaun Ljósbrots sem hefur verið að fara sigurför um heiminn eftir að hafa hlotið standandi lófaklapp sem opnunarmynd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes. Með aðalhlutverk fara, Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.