Hann lét þessi ummæli falla í viðtali við Fox News og sagði að nú verði breytingar á áherslunum hvað varðar öryggi á landamærum Bandaríkjanna og við vernd almennra borgara.
Á fyrsta degi sínum í Hvíta húsinu skrifaði Donald Trump undir tilskipun þess efnis að mexíkóskir eiturlyfjahringir og önnur skipulögð glæpasamtök séu erlend hryðjuverkasamtök. Þetta var liður í tilraunum hans til að þrýsta á mexíkósk stjórnvöld að ná stjórn á fíkniefnaútflutningnum frá landinu.
Í tilskipuninni felst að bandarísk yfirvöld geta beitt efnahagslegum refsiaðgerðum og ferðatakmörkunum og einnig er opnað fyrir beitingu hervalds erlendis.
Þegar Hegseth var spurður hvort tilskipunin veiti honum heimild til að ráðast til atlögu við mexíkóska eiturlyfjahringi sagðist hann ekki vilja taka fram fyrir hendurnar á Trump. Það verði ákvörðun Trump en ljóst sé að allir möguleikar séu uppi á borðinu þegar verið sé að eiga við erlend hryðjuverkasamtök.