Ákæra hefur verið birt sex sakborningum í stærsta metamfetamín-máli sögunnar en ákærðu eru sökuð um að hafa smyglað rúmlega 5,7 kg af metamfetamín kristöllum í bíl sem kom til hafnar hér við land með flutningaskipi frá Hollandi þann 11. október ári 2024.
Lögregla lagði hald á fíkniefnin og skipti þeim út fyrir gerviefni áður en bíllinn var afhentur þremur sakborningum í málinu. Fjórði sakborningurinn er ákærður fyrir að hafa tekið við bílnum og reynt árangurslaust að fjarlægja efnin úr houm. Fimmti sakborningurinn er sakaður um að hafa liðsinnt mönnunum við þetta og sjötti sakborningurinn, og eina konan í hópnum, er ákærð fyrir að hafa tekið við hluta efnanna, eftir að búið var að losa þau úr bílnum, og borið þau inn í hesthús.
Sakborningarnir njóta nafnleyndar í þeirri útgáfu héraðssaksóknara sem send hefur verið fjölmiðlum. Vísir hefur hins vegar greint frá því að einn hinna ákærðu sé Sigurður Ragnar Kristinsson.
Sigurður þessi hefur áður verið sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefna- og skattalagabrot. Árið 2019 var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í hinu alræmda Skáksambandsmáli sem varðaði innflutning á fimm kílóum af amfetamíni til Íslands frá Spáni. Málið dró nafn sitt af því að fíkniefnin voru send á skrifstofu Skáksambands Íslands þar sem forseti sambandsins tók grunlaus við efnunum. Skömmu síðar ruddust fjórtán sérsveitamenn inn í húsnæðið við Faxafen og handtóku forsetann sem var þó sleppt þegar ljóst varð að hann hafði ekkert með málið að gera.
Málið sem hér um ræður varðar stærstu haldlagningu á metamfetamín-kristöllum sem átt hefur sér stað hér á landi. Verður málið þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 5. febrúar næskomandi.