Dómarinn Michael Oliver verður í eldlínunni um helgina og mun dæma slaginn um Liverpool í næsta mánuði þrátt fyrir frammistöðu sína um síðustu helgi.
Oliver hefur fengið harða gagnrýni í kjölfar þess að hann gaf Myles Lewis-Skelly, leikmanni Arsenal, beint rautt spjald fyrir litlar sakir gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni á laugardag. Arsenal mun áfrýja dómnum.
Sparkspekingar hafa margir hverjir hjólað í dómarann í kjölfar dómsins en enska úrvalsdeildin hefur sett Oliver á leik Ipswich og Southampton um helgina, eins og enskir miðlar fjalla nú um.
Þá hefur Oliver einnig verið settur á frestaðan nágrannaslag Everton og Liverpool þann 12. febrúar, en sá leikur gæti verið þýðingarmikill í titilbaráttunni. Liverpool er með 6 stiga forskot á Arsenal á toppi deildarinnar og á leikinn gegn Everton til góða.