Þrítug einstæð móðir, Deveca Rose, hefur verið dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að hafa skilið fjóra unga syni sína eftir eina heima við ömurlegar aðstæður. Rose brá sér í búðina og á meðan brann heimilið til grunna og létust bræðurnir fjórir allir í brunanum.
Í desember 2021 skildi Rose tvíburana Kyson og Bryson, fjögurra ára, og tvíburana Leyton og Logan, þriggja ára eftir umkringda rusli og mannasaur á heimili þeirra í Sutton í suður London. Rose læsti heimilinu og fór síðan að kaupa „ónauðsynlegar“ vörur í matvörubúð Sainsbury’s .
Dómurinn yfir Rose var kveðinn upp í Old Bailey í dag og sagði Kerrie Hoath stjúpamma bræðranna að réttlætinu hefði verið fullnægt, en hún syrgði þá jafnframt eftir að þeir voru teknir á svo grimmilegan hátt frá fjölskyldu þeirra.
„Virðingarleysið sem hún sýndi strákunum okkar hefur endurómað öll réttarhöldin þar sem fjölskyldan okkar hefur þurft að þola þriggja ára lygar, tafir og rangar frásagnir. Þessi tími hefur verið martröð og það er ekki hægt að lýsa þeim áhrifum sem hann hefur haft á fjölskyldu okkar. Við höfum heyrt vangaveltur um að eldurinn hafi kviknað af ljósum á jólatré, rangar fullyrðingar um að drengirnir hafi verið skildir eftir með barnapíu. Við þökkum dómaranum fyrir að hafa horft framhjá þessu og kveðið upp réttlátan dóm. Bryson, Kyson, Logan og Leyton voru skildir eftir einir af móður sinni Deveca Rose. Hún hefur verið dæmd til ábyrgðar vegna andláts þeirra. Við söknum þeirra á hverjum degi og munum alltaf geyma þá í hjörtum okkar.“
Í réttarhöldunum kom fram að talið er að eldurinn hafi kviknað vegna hálfreyktrar sígarettu eða teljós. Nágrannar heyrðu drengina gráta í örvæntingu og öskra á hjálp.
„Það er eldur,“ heyrðust bræðurnir öskra.
Einn nágranni reyndi að brjóta niður útidyrnar en það var of seint. Slökkviliðsmenn fundu bræðurna þar sem þeir lágu meðvitundarlausir undir rúmum sínum. Þeir voru fluttir með hraði á tvö sjúkrahús. Allt var reynt til að bjarga lífi þeirra, en þeir létust síðar um nóttina.
Dánarorsök þeirra var skráð sem reykinnöndun.
Rose sneri aftur heim á meðan slökkviliðsmenn voru enn að ráða niðurlögum eldsins og nágranni tók á móti henni. Rose hélt því fram að hún hefði skilið börnin eftir hjá vinkonu að nafni Jade, sem varð til þess að slökkviliðsmenn fóru aftur inn í húsið til að leita að henni.
Lögreglan gerði víðtækar rannsóknir til að finna umrædda Jade og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri annað hvort ekki til eða hefði ekki verið í húsinu þennan dag.
Í yfirheyrslum hjá lögreglu viðurkenndi Rose að hafa skilið drengina eftir eina í húsinu í tvö skipti. Félagsráðgjafi hafði lýst yfir áhyggjum af fjölskyldunni en málinu var lokað þremur mánuðum fyrir brunann. Áður hafði heilbrigðisstarfsmaður einnig lýst yfir áhyggjum sínum en þeim var ekki fylgt eftir eftir að hún lét af störfum.
Fjölskyldan bjó við ömurlegar aðstæður. Heimilið var svo fullt af rusli að eldurinn breiddist hraðar út og mannasaur fannst smurður á veggina. Bræðurnir höfðu ekki mætt í skóla í þrjár vikur fyrir eldsvoðann. Við réttarhöldin kom fram að klósettið og baðið væru ónothæf vegna þess að þau væru svo full af rusli, en fötur og pottar voru notaðir í staðinn.
Fjöldi ættingja drengjanna las upp yfirlýsingar í dóminum í dag. Dalton Hoath, faðir drengjanna, sagði að hann gæti ekki lýst því hvaða áhrif dauði barnanna hefði haft á hann og sagðist hann helst vilja fylgja þeim í dauðann. „Sársaukinn af þessum missi hefur splundrað líf mitt á allan mögulegan hátt,“ sagði faðir hans, Jason Hoath
„Tilhugsunin um að þeir hafi grátið og öskrað mun ásækja mig að eilífu. Eina huggun mín er að þeir eru nú saman að eilífu og þurfa aldrei að vera einir aftur. Hryllingurinn, sársaukinn situr eftir hjá mér eftir þrjú ár,“ sagði langamman Sally Johnson.
Rose huldi andlit sitt og grét þegar yfirlýsingar ættingja sona hennar voru lesnar upp áður en dómur var kveðinn upp, 10 ára fangelsi vegna fjögurra ákæra um manndráp.
Dómarinn, Mark Lucraft KC, tilkynnti að Rose hyldi andlit sitt og að það væri læknisfræðileg ástæða fyrir því. Rose mætti oftast við réttarhöldin með fjarfundi að heiman, mun það hafa verið samkvæmt læknisráði. Hún neitaði einnig að leggja fram einhver sönnunargögn sér til varna. Fyrir dómi voru lagðar fram vísbendingar um að hún væri líklega þunglynd og gæti hafa þjáðst af persónuleikaröskun, en ákæruvaldið fullyrti að það væri ekki vörn. Lögfræðingur hennar hélt því fram að Rose hefði glímt við „flóknar geðheilbrigðisþarfir“. „Jafnvel þótt hún beri refsiábyrgð á dauða þessara barna, þá hefur hún orðið fyrir mestu tjóni allra,“ sagði lögmaður Rose.
„Það eru engin orð til að lýsa þessu máli önnur en hörmulegt. Síðustu augnablik lífs ungra bræðra voru mörkuð líkamlegri þjáningu þar sem eldurinn blossaði upp og þeir reyndu að komast burt frá honum,“ sagði dómarinn við uppkvaðningu dóms síns.
Hann sagði við Rose:
„Ef þú hefðir verið heima hefðir þú mögulega getað slökkt eldinn eða getað komið þeim út úr húsinu. Þú varst ekki þarna og börnin voru of ung til að vita hvað þau ættu að gera. Vegna gjörða þinna eru þeir látnir.“