„Það er svo „mindblowing“ að þetta sé ólöglegt, það er bara sturlun og það er náttúrlega ólög. Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti. Ég hef sagt það oft að ég óska engum að deyja án þess að upplifa þessa staði sem hugvíkkandi efni hjálpa okkur að opna á. Fólk sem þekkir ekki dæmir og þegar við erum að dæma þá kemur það frá ótta og fáfræði,“
segir Sara María Júlíudóttir, sálarmeðferðarfræðingur með sérþekkingu á hugvíkkandi efnum, sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Sara er ein þeirra sem telur að framtíð geðlækninga sé falin í notkun hugvíkkandi efna í formi meðferða og undir eftirliti og stjórn fagaðila. Hún hefur sjálf mikla reynslu af slíkum meðferðum en hana langar að sjá Ísland verða leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni.
„Eins mikið og geðlyf hafa bjargað lífi fólks þá er það ekki eðlilegt fyrir svona marga að vera svona lengi á geðlyfjum. Þau eiga að geta hjálpað okkur í mánuð, tvo, þrjá, fimm. Það er ekki mitt að segja. En svo eiga læknar að hjálpa okkur að finna aðrar leiðir til að losna undan þessum lyfjum og það er ekki eðlilegt að fólk sé búið að vera á sterkum geðlyfjum og svefnlyfjum í 16-20 ár og læknirinn bara skrifar upp á þetta. Og svo hættir fólk sjálft og það er ekkert að þeim.“
Segir Sara stærstu háskóla í heimi komna með deildir í hugvíkkandi efnum.
„Það er búið að gera þúsundir klínískra rannsókna á meðferðum með hugvíkkandi efnum, meðferðum gegn kvíða, þynglyndi, PTSD [áfallastreita]. Það er rosaleg bylting í heiminum og við á Íslandi, almenningur er ekkert að spá í þetta. En það eru ótrúlega stórir og magnaðir hlutir að gerast.“
Sara hélt stóra alþjóðlega ráðstefnu um hugvíkkandi efni fyrir tveimur árum, sem þótti gríðarlega vel heppnuð, og nú ætlar hún að endurtaka leikinn í Hörpu í lok febrúar. Þar hafa boðað komu sína mörg af stærstu nöfnum þessara fræða á heimsvísu og ljóst að áhugamenn um hugvíkkandi efni mega alls ekki láta þennan viðburð framhjá sér fara.
„Það verður mikið fjallað um ibogaine á ráðstefnunni. Það er það efni sem virkar hvað best gegn fíkn og fíknivanda. Það sem þeir eru að leitast við í Bandaríkjunum er svarið við ópíóðafaraldinum.“
Á ráðstefnuna mætir Rick Doblin sem leiðir MDMA byltinguna í Bandaríkjunum en hann kom einnig á ráðstefnuna fyrir þremur árum. Sara hefur eftir honum að Ísland geti gert ýmsa hluti í þessum meðferðum sem ekki er hægt að framkvæma í Bandaríkjunum.
Sara segir íslenska geðlækna og fagfólk eiga að mæta á ráðsetnuna
„Þessi ráðstefna er til að fræða. Við erum ekki búin að setja sveppi eða LSD í vatnið sem þú drekkur á ráðstefnunni. Geðlæknir sem ég hef reynt að ná til er á móti ráðstefnunni, hann hefur samt áhuga á þessu, en talar niður til mín. Mættu bara og hlustaðu. Það er skylda þín sem læknir að læra, og hlusta og skilja. Þú þarft alls ekki að vera sammála þessu, en þú átt að koma og hlusta það er bara þannig.“