Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens greinir frá því að hann hafi lent í leiðindaatviki þegar hann var á gangi með hundinn sinn á Seltjarnarnesi. Aðvífandi hafi komið laus hundur og sá sem var með hann ekki ráðið neitt við neitt. Eigandi hins hundsins segir aðra sögu.
„Var á gangi með hundinn minn hana Lúnu út í Gróttu áðan þegar hundur, mjóhunda týpa, kallaður Kobbi, kom æðandi úr 5 hunda hópi sem einhver ungur maður var með,“ segir Bubbi í færslu í íbúahópi Seltirninga. En Lúna er Collie hundur. „Allir lausir, hann réði ekki við þennan hund sem hlýddi honum í engu og allir hinir fylgdu með.“
Varð úr þessu svolítill árekstur, á milli hunda og á milli manna.
„Ég þurfti að halda á mínum til að forða honum úr þessum látum,“ segir Bubbi. „Þegar ég sagði honum að þetta væri ótækt að þeir væru ekki í bandi sagði hann „róaðu þig“ meðan hann öskraði úr sér lungun á hundinn sem var stökkvandi á mig.“
Minnir hann fólk á að hafa hundinn sinn í ól ef fólk er á ferli í nágrenninu.
Þessu svarar maður sem heitir Björn Bragi Skarphéðinsson og segist vera eigandi mjóhundsins umrædda, en hann hafi þó ekki verið á gangi sjálfur heldur frændi hans sem hafi verið að passa hundinn á meðan hann var erlendis.
„Hann frændi minn sagði allt aðra sögu, hann sagði að þú hafir öskrað á hann og hundinn og sagði að hundurinn minn væri hræddur við þinn hund,“ segir Björn Bragi og að þetta sé ekki í lagi.
Hann hafi átt mjóhundinn í sjö ár og að hann sé nú kominn fram á síðustu ár.
„Best væri að ef ég er á röltinu með hundinn að allir sem eru með aðra hunda forðast þess að labba nálægt mér og leyfa mér og hundinum mínum bara að vera í friði. Ég skal senda næst inn á þessa síðu þegar ég fer með hundinn og vill að allir haldi sér heima á meðan. Gefa okkur smá frið á meðan hún er á sínu síðustu árum,“ segir hann.
Bubbi brást við athugasemdinni með sáttatón en bað Björn Braga þó um að axla ábyrgð.
„Vinur, ég ætla ekki munnhöggvast við þig. Þetta voru 5 hundar, allir lausir. Ég sagði hvasst við hann að þeir ættu að vera í ól. Hundurinn þinn var mjög sprækur og hoppaði á mig nokkrum sinnum. Taktu ábyrgð vinur á því að láta frænda þinn fara út með 5 hunda, alla lausa. Þeir komu allir hlaupandi að okkur geltandi á meðan ég var með hundinn minn í fanginu að reyna koma okkur í burtu,“ skrifar Bubbi.
Hefur þessi deila vakið nokkra athygli hjá íbúum Seltjarnarness. En deilur á milli hundaeigenda er svo sem ekki nýjar af nálinni. Bent er á að lausaganga hunda sé bönnuð í þéttbýli nema á þar til gerðum stöðum.