Fyrir undirrituðum er stærsta hagsmunamál okkar tíma full innganga í ESB – við erum þar nú þegar 80-90%, en án setu við borðið, án áhrifa – og svo það, sem mest er; upptaka evru. Með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar skapast sögulegt tækifæri til að ná þessu, en tímaramminn er þröngur og það verður að nýta hann vel. Ef ekki, rennur þetta einstaka tækifæri, sem enginn veit hvort/hvenær kemur aftur, okkur úr greipum.
Afstaða okkar til samningaumleitana við ESB
Nýlega var frétt á Vísi með fyrirsögninni „Meirihluti er hlynntur atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.“ Var þar verið að fjalla um skoðanakönnun, sem Prósent framkvæmdi fyrir/um áramót um afstöðu manna til framhaldsviðræðna við ESB um mögulega aðild Íslands.
Af þeim, sem spurðir voru, voru 58% hlynntir atkvæðagreiðslu um framhaldsviðræður – enda hér litlu eða engu að tapa, óskuldbindandi samningaumleitanir auðvitað áhættulausar – 27% voru andvíg atkvæðagreiðslu um framhaldssamninga, hver svo sem skýringin er á því, hverju væri að tapa – og 15% höfðu ekki myndað sér skoðun á málinu.
Af þeim, sem höfðu skoðun á málinu, töldu þannig 68% sjálfsagt að fara í framhaldsviðræður, leita endanlegra aðildarsamninga við ESB, án fyrirfram skuldbindingar, og fá þannig endanlega mynd á hver aðildarkjör og aðildarskilmálar okkur byðust, þá ekki sízt í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.
Vilji afgerandi meirihluta þjóðarinnar til að fá skýrleika í þetta mikilvæga mál liggur því fyrir, og er ekki ástæða til að draga það, að láta á atkvæðagreiðslu reyna!
En hver er afstaða ESB?
Okkar afstaða liggur fyrir, en hin spurningin er hver er staða gagnaðila okkar, ESB-ríkjanna 27, til framhaldsviðræðna. Í þessu samningamáli þarf auðvitað tvo til.
Nýr utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín, fékk það staðfest í Brussel á dögunum að ESB lítur á þær aðildarviðræður, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf sumarið 2010, sem virkar og gildar, þrátt fyrir bréf Gunnars Braga, þá utanríkisráðherra í stjórn Sigmundar Davíðs, frá 12. marz 2015, um að sú ríkisstjórn vildi slíta viðræðum.
Að þessu leytinu til eru mögulegar framhaldsviðræður milli Íslands og ESB því opið mál, en hvað með aðrar hliðar málsins hjá ESB?
Engin ný ESB-aðildarríki frá 2013 – Hversu traust er umsóknin? – Öll aðildarríkin þurfa að samþykkja
ESB hefur ekki tekið inn neitt nýtt aðildarríki frá því 2013, þá var Króatía tekin inn, þrátt fyrir að 9-10 aðildarumsóknir liggi fyrir, sú elzta frá 1987, þar sem ýmis aðildarríki vilja tryggja betri samstöðu og samvinnu þeirra ríkja, sem fyrir eru, um ýmis grundvallarmál eins og flóttamannamálin, skiptingu flóttamanna og allt það flókna regluverk, svo og um fyrirkomulag varna ytri landamæra ESB og margt annað, áður en lengra er haldið með stækkun ríkjasambandsins, upptöku nýrra aðildarríkja.
9-10 umsóknarríki þýðir líka að mikið álag er á stækkunardeild sambandsins og ekki hægt að vinna þar að öllum málum í einu. Þar verður því að forgangsraða.
Hvaða nýtt umsóknarríki félli vel að ríkjasambandinu, við hvaða umsóknararríki mætti semja með uppbyggilegum, traustum og árangursríkum hætti? Hér vaknar auðvitað sú spurning, hversu traust, heil og viðvarandi hver og ein umsókn er, hér möguleg framhaldsumsókn Íslands.
Inn í þessar spurningar spilar svo sú staðreynd að eins og í öllum stærri málefnum ESB verða öll aðildarríkin 27 að samþykkja ef framgangur á að verða í málinu. Hafa þau öll áhuga á mögulegri aðild Íslands og það sem forgangsmál?
Myndi ESB geta treyst því að framhaldsumsókn Íslands væri traust og varanleg?
Þetta hlýtur að vera grunnspurning af hálfu ESB-ríkjanna. Ef ekki, til hvers þá að vera að fara í framhaldssamninga, sem þá mögulega myndu enda eins og síðast; fokkast upp vegna breyttra aðstæðna; nýrrar ríkisstjórnar.
Það er því augljóst grundvallaratriði fyrir ESB, hrein forsenda mögulegra framhaldssamninga, að þeir geti farið fram, og að unnt verði að ljúka þeim við þá nýju ríkisstjórn sem nú situr.
Sá tímarammi er auðvitað í lengstu lög 2025-2028 árslok. 4 ár. Ætla má að framhaldssamningar taki 2-3 ár og svo mögulegt þjóðaratkvæði um þá og formlegir aðildarsamningar 1 ár. Alls 3-4 ár til að tryggja mögulega aðild.
Þetta þýðir auðvitað að engan tíma má missa.
Getur ríkisstjórnin staðið saman í málinu?
Fyrsta skrefið er samstaða um atkvæðagreiðslu um framhaldssamninga. Skv. skoðanakönnun Prósents styðja 84% kjósenda Samfylkingarinnar þjóðaratkvæði um framhaldssamninga (6% á móti), 79% kjósenda Viðreisnar (7% á móti) og 51% Flokks fólksins (26% á móti). Slík kosning og slíkt skref ætti því að vera trygg.
Varðandi afstöðu til mögulegs þjóðaratkvæðis um aðild að loknum samningaviðræðum, þegar samningsdrög lægju fyrir, þá veit enginn nú, hverjar samningsniðurstöður endanlega verða og er því ekki hægt að tala mikið um endanlega afstöðu til aðildar nú.
ESB ætti þó að vera ljóst, á grundvelli ofangreindrar afstöðu til framhaldsviðræðna, að það ætti að vera ómaksins vert að framhalda og ljúka viðræðum við Ísland svo fremi sem tímaramminn fyrir þær væri innan valdatíma þessarar ríkisstjórnar.
Ef framhaldsviðræður hæfust hins vegar fyrst 2027, væru þær tilgangslaus tímasóun, því ljóst væri að ekki yrði hægt að ljúka þeim 2028 þannig að algjör óvissa væri um hver færi með samningana, fyrir Íslands hönd, frá janúar 2029. Gætu það allt eins verið svipuð öfl og þau, sem fokkuðu upp samningunum 2015.
Má semja um undanþágur og sérlausnir við ESB? JÁ!
Hægri öfgaöflin hér, þjóðernis- og þröngsýnisöflin, Heimssýnarmenn, Davíð Oddsson og aðrir slíkir, halda því stöðugt fram að ekki sé hægt að semja við ESB um sérkjör eða sérlausnir.
Á þessum grundvelli eru þeir að reyna að koma í veg fyrir framhaldssamninga og þjóðaratkvæði um þá. Hér er hins vegar um rangfærslur og ósannindi að ræða. Flestir, sem eitthvað um málið vita, líka flestir úrtölumanna, vita það.
Þann 13. janúar sl. skrifaði ég grein hér á Eyjuna um undanþágur og sérlausnir sem ESB hefur samþykkt. Fyrirsögnin var: „Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna.“ Vísa ég hér til þessarar greinar.
Niðurstaða
Ríkisstjórnin verður að fara í það strax, að undirbúa þjóðaratkvæði um framhaldsviðræður, þannig að þær geti farið fram í 3. ársfjórðungi í ár og ef vilji til þeirra verður staðfestur geti framhaldssamningar byrjað í 4. ársfjórðungi í ár. Hér má engum tíma tapa.
Höfundur er samfélagsrýnir