Ríkharð segir í nýjasta þætti Þungavigtarinnar að hann hafi smellt sér vestur í bæ, nánar tiltekið í Björnsbakarí, og hitt þar mann sem tjáði honum að nýr maður væri að taka við starfi Páls á næstu vikum.
„Hann fullyrti það að það væru heldur betur breytingar framundan hjá KR-ingum. Páll Kristjánsson, sem hefur verið formaður knattspyrnudeildar KR, hann er á leið út. Það mun gerast á næstu vikum og við hans kefli tekur Magnús Orri Schram,“ segir Ríkharð.
Magnús var þingmaður Samfylkingarinnar frá 2009 til 2013. Hann lék með KR á sínum tíma.
Páll hefur verið formaður KR síðan eftir leiktíðina 2019. Félagið hefur átt heldur erfitt á þessum árum, þó ekki síst vegna aðstöðumála og þess háttar.
„Ég veit ekkert hvort hann sé á leiðinni út úr félaginu en hann er allavega á leiðinni út sem formaður,“ segir Ríkharð enn fremur.