Á síðustu árum hafa þúsundir Íslendinga ferðast til Tenerife og sumir hverjir jafnvel flutt þangað. Eyjan í suðri hefur orðið einn vinsælasti ef ekki sá allra vinsælasti af áfangstöðum Íslendinga. Mikið hefur borið á ferðum Íslendinga til Tenerife síðustu ár og ekki væri því óhugsandi að draga þá ályktun að skipulagðar ferðir frá Íslandi til Tenerife sé tiltölulega nýtilkomnar. Svo er þó alls ekki því fyrstu fréttir, í íslenskum fjölmiðlum, af skipulögðum ferðum Íslendinga til eyjarinnar sívinsælu í suðri birtust fyrir meira en hálfri öld.
Fyrst birtust fregnir af ferðum á vegum íslenskra ferðaskrifstofa til Tenerife árið 1960. Í nóvember það ár greindi Morgunblaðið frá því að ferðaskrifstofan Sunna myndi bjóða upp á ferð þangað í febrúar 1961. Flogið var frá Íslandi til London og þaðan til Tenerife. Dvölin átti að standa í 16 daga. Innifalið í verði ferðarinnar var allt uppihald og flugferðir. Verðið var 15.400 krónur sem á verðlagi í desember 2024 eru 652.809 krónur. Það var ekki tekið sérstaklega fram en væntanlega var þetta verðið á hvern farþega.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kom fram að vegna hagstæðra samninga gætu farþegar Sunnu notið góðs af þessu verði og sparað sér mikil útgjöld.
Kári Tryggvason kennari og rithöfundur frá Hveragerði fór ásamt um 80 öðrum Íslendingum í ferð til Tenerife 1962 og sagði Tímanum ferðasöguna, árið eftir, Kári sagði meðal annars svo frá:
„Fjöldi fólks lá og flatmagaði sig í sólskininu, þar eð nú var orðið mjög heitt í veðri. Flestir voru sólbrúnir eftir margra daga sund og sólböð. Mest var um ungt fólk og börn. Einnig mátti sjá þar skorpna karla og kerlingar. Örfáir hvítir kroppar sáust hér og þar. Þangað fór ég, enda reyndist sá grunur minn réttur, að þar væru landar mínir og ferðafélagar.“
Sunna auglýsti ferðir til Tenerife reglulega næstu árin en 1966 auglýsti Eimskip siglingar með farþegaskipinu Gullfossi þar sem meðal viðkomustaða var Tenerife en dvalið var í höfnum á hverjum stað á „eigin heimili um borð í Gullfossi.“
Morgunblaðið ræddi við nokkra farþega úr einni ferðinni þegar þeir snéru aftur til Íslands og sögðu sumir að Tenerife hefði verið skemmtilegasti viðkomustaðurinn.
Íslenskir ferðaþjónustuaðilar áttuðu sig snemma á því að markaður væri fyrir vetrarferðir frá Íslandi til suðlægari landa og frá upphafi skipulagðra ferða til Tenerife hefur verið boðið upp á þær að vetri til.
Eftir því sem árin liðu voru einnig dæmi um að ferðir frá Íslandi til Tenerife væru í boði fyrir bandaríska hermenn á Keflavíkurflugvelli. Það var auglýst árið 1975 í blaðinu White Falcon sem gefið var út á varnarsvæðinu. Sama ár buðu félög Framsóknarflokksins í Reykjavík félagsmönnum sínum upp á ferðir til Tenerife.
Það ætti því að vera ljóst af þessari stuttu samantekt að ástarsamband Íslendinga og Tenerife á sér nokkurra áratuga langa sögu en kannski má segja að það hafi færst í aukana á síðustu árum.