Notendur samfélagsmiðla fyrirtækisins Meta, sem meðal annars heldur úti Facebook og Instagram, hafa verið uggandi undanfarna daga eða allt frá því að Donald Trump tók aftur við embætti Bandaríkjaforseta á mánudaginn.
Margir notendur Instagram greindu frá því að svo virtist í vikunni sem að hin ýmsu efnisorð sem tengjast vinstri væng stjórnmálanna væru bönnuð, sem og efnisorð sem bentu til gagnrýni í garð Trump. Þessu var fljótlega kippt í liðinn, en Meta kennir kerfisvillu um málið og heldur því fram að villan hafi náð með jöfnum hætti til vinstri málefna sem og hægri.
Nú hefur Meta aftur þurft að svara fyrir sig eftir að notendur uppgötvuðu, sumir sér til skelfingar, að þeir voru farnir að fylgja Bandaríkjaforseta, varaforsetanum JD Vance og jafnvel forsetafrúnni án þess að fá nokkuð um það að segja.
Fyrst um sinn benti Meta á að fólk sé í raun að fylgja embættinu. Því sé ekki skrítið að það sé enn að fylgja því þó nýr forseti sé tekinn við völdum. Þessari skýringu hefur þó verið harðlega mótmælt af fólki sem þvertekur fyrir að hafa nokkurn tímann fylgt embættinu. Hvað þá embætti varaforseta eða forsetafrúnnar. Enn meiri skelfing greip um sig þegar samfélagsmiðlanotendur uppgötvuðu að þeir gátu ekki hætt að fylgja þessum aðgöngum.
Margir hafa vakið athygli á því að eftir að þeir hættu að fylgja Trump, Vance, eða forsetafrúnni Melania Trump, hafi þeir skyndilega aftur verið komnir á fylgjendalistann nokkrum tímum síðar. Fyrir suma endurtók þetta sig ítrekað og jafnvel þó þeir hefðu blokkað embættismennina.
Meta viðurkennir að sumir gætu átt erfitt með að hætta að fylgja forsetanum og félögum. Þetta eigi sér þó eðlilegar skýringar. Það sé ferli að afhenda nýjum forseta Meta-aðganginn sem geti valdið tregðu í fylgjendalistanum. Það sé þó ekki verið að þvinga neinn og Meta stendur enn fast á því að enginn sem ekki var áður að fylgja Joe Biden sé nú að fylgja Trump í sinni óþökk.
Þetta útskýrir ekki þær fjölmörgu frásagnir sem hafa birst á samfélagsmiðlum undanfarna daga. Fólk er ekki að kaupa skýringarnar. Þetta sé ekki eðlilegt.
I thought yall were being weirdo conspiracy theorists but Meta absolutely did auto follow the VP and POTUS accounts for everyone even though we all unfollowed. Check the photo evidence: pic.twitter.com/Ku6DAT96Pr
— Elita | UGC Creator (@UGCxElita) January 21, 2025
Söngkonan Demi Lovato er ein þeirra sem hafa lent í þessu en hún segir á Instagram: „Ég er búin að hætta að fylgja þessum gaur tvisvar í dag,“ og átti þar við varaforsetann.
Leikkonan Sarah Colonna skrifaði á Threads, sem er annar miðill í eigu Meta: „Hvers vegna er Facebook hjá mér sjálfkrafa byrjað að fylgja Melania Trump í dag. Hvað ertu að gera?,“ en grínistinn taggaði forstjóra Meta, Mark Zuckerberg í færslu sinni og krafðist skýringa.
Á Reddit hefur verið bent á að skýringar Meta haldi engu vatni hvað Instagram varðar. Þar sést að aðgangur varaforsetans var stofnaður í janúar á þessu ári á meðan aðgangur Kamala Harris er enn til staðar nema óvirkur. Því ættu fylgjendur ekki sjálfkrafa að færast yfir til Vance. Einn notandi lenti í því að Instagram-reikningur sem hann heldur úti fyrir hundinn sinn var farinn að fylgja Trump og Vance, en hundurinn hafði áður aðeins fylgt öðrum hundum.
Millions are complaining that META forced them to follow Trump & Vance on their platforms. pic.twitter.com/uVOkm5ISmU
— TizzyEnt (@TizzyEnt) January 22, 2025
Reddit-notendur lýstu raunum sínum:
„Ég hef hætt að fylgja og blokkað rassgatið á þeim í þrígang. Tvisvar hvað forsetann varðar og einu sinni forsetafrúna. Þetta er ekki bara út af því að það er verið að skipta út eigendum aðganganna.“
„Þetta er líka að koma fyrir mig. Ég hef hætt að fylgja þeim öllum fimm sinnum og samt heldur miðillinn áfram að skrá mig sjálfkrafa sem fylgjanda. Ég er núna búin að blokka þau og ég held það hafi virkað.“
„Ég er frá Kanada og kíkti á Facebook og var þá að fylgja Trump. Ég gerði það klárlega ekki sjálfviljugur.“
„Þetta eru dystópíutímar. Í guðanna bænum, bjargið mér úr þessari tímalínu.“
„Það virðist ekki duga að blokka þá. Þetta er bara fasísk áróðursmaskína á fullri ferð.“
Íslendingar hafa jafnvel lent í þessu og það þó þeir hafi aldrei fylgt neinum bandarískum stjórnmálamanni á miðlum Meta.