Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður og einn af forystumönnum Sósíalistaflokksins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hafa löngum eldað grátt silfur. Deildu þeir einu sinni sem oftar á Facebook-síðu þess fyrrnefnda fyrr í dag en Gunnar Smári segir að allt sem sé að á Íslandi sé Hannesi að kenna.
Tilefni deilnanna er færsla Gunnars Smára þar sem hann gagnrýnir einu sinni sem oftar frjálshyggju, sem Hannes hefur verið mikill talsmaður fyrir, og segir sósíalisma einu lausnina. Gunnar Smári skrifar meðal annars:
„Fyrst var nýfrjálshyggjan notuð til að færa völd, fé, auð og auðlindir frá almenningi til hinna ríku (sem hétu markaðurinn á þessum tíma). Þegar hin ríku hafa náð undir sig ríkisvaldinu vilja þau nota valdið til skrúfa upp alræði auðvaldsins, vald hinna fáu ríku og klára niðurbrot allra þeirra réttinda sem almenningur náði að sækja á baráttutíð sinni; frá réttindum til að mynda verkalýðsfélög, frá almennum kosningarétti og til réttarins að vera annað en það sem yfirstéttin vill eða samþykkir, að vera í opinni andstöðu við valdastéttirnar og auðinn. Þessi barátta alþýðunnar er náttúrlega sósíalismi, sem er nafn baráttu hinna valda- og félausu gegn hinum valdamiklu og auðugu. Valkosturinn var alltaf sósíalismi eða barbarismi.“
Hannes svarar þessu á eftirfarandi hátt:
„Á Íslandi er jafnasta tekjudreifing í heimi samkvæmt alþjóðlegum samanburðarmælingum og minnst fátækt. Geturðu bent á eitthvert land, þar sem tekjudreifing er jafnari og fátækt minni? Það á að minnsta kosti ekki við um þau lönd, sem hafa valið sósíalisma, Kúbu, Venesúela og Norður-Kóreu, eða hvað?“
Ljóst er að hugmyndir Hannesar um kosti frjálshyggjunnar höfðu mikil áhrif á stefnu stjórnvalda hér á landi þegar vinur hans Davíð Oddsson var forsætisráðherra á árunum 1991-2004. Gunnar Smári vísar til þess í harðorðu svari sínu við andsvari Hannesar:
„Ertu að stæra þig af jöfnuði á Íslandi? Sá jöfnuður sem hér er, eru leifar af baráttu sósíalískrar verkalýðsbaráttu frá síðustu öld, það sem ykkur nýfrjálshyggjumönnunum tókst ekki að eyðileggja og skrúfa ofan af. Allt sem er að á Íslandi er þér að kenna Hannes. Og ekkert af því sem gott er, er þér að þakka. Það er almenna reglan sem kenna ætti í stjórnmálafræði í HÍ, nú þegar skólinn er laus við þig.“