fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 22. janúar 2025 17:00

Ekki benda á mig - Segja bæði Costco og Olíudreifing.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Costco á Íslandi hefur stefnt Olíudreifingu vegna umhverfisslyss þegar hundruð þúsunda lítra dísilolíu flæddi beint í fráveitukerfi Hafnarfjarðar. Costco fékk tugmilljóna króna sekt vegna málsins á sínum tíma.

Málið verður tekið fyrir á morgun, 23. janúar, í Héraðsdómi Reykjavíkur. En Costco krefjast þess að Olíudreifing greiði þeim þær 20 milljónir króna sem versluninni var gert að greiða í sekt og meira til.

Málið kom upp í desember mánuði árið 2022 þegar íbúar í Hafnarfirði fóru skyndilega að finna ákaflega slæma lykt. Einkum átti þetta við í Vestur- og Norðurbæ Hafnarfjarðar. Lyktin kom meðal annars upp úr niðurföllum og sturtubotnum heimila.

Kvartanir tóku að berast Hafnarfjarðarbæ og Heilbrigðiseftirlitið fór í málið. Framan af gekk þó illa að finna handbærar skýringar á ólyktinni, sem var varið að valda sumum íbúum ógleði.

Í ljós kom að olía var í fráveitunni og mikil rannsókn fór í gang með olíufélögunum til að athuga hvar upptökin væru. Kom í ljós að olían var að streyma frá holræsakerfi Garðabæjar, sem er tengt inn á kerfi Hafnarfjarðar.

110 þúsund lítrar

Starfsmenn Garðabæjar hófu rannsókn og að lokum var hægt að rekja lekann að Kauptúni þar sem Costco rekur bensínstöð. Hafði átt sér stað bilun í hreinsibúnaði sem olli því að dísilolía lak beint út í fráveitukerfið. Var greint frá þessu í fjölmiðlum þann 11. janúar árið 2023.

Olían hafði lekið í um mánuð því í ljós kom að þann 9. desember árið 2022 hafði mikið magn olíu fundist í skilju Costco. Var þá ljóst að eitthvað var að, sem reyndist vera bilun í hreinsibúnaði. Alls láku 110 þúsund lítrar frá bensínstöð Costco í gegnum fráveitukerfi Hafnarfjarðar og út í sjó.

Mikil reiði blossaði upp eftir þetta í Hafnarfirði. Meðal annars létu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn bóka að það hafi verið mikil mildi að slysið hafi ekki leitt til heilsutjóns íbúa sem urðu fyrir því. Kröfðust þeir rannsóknar á málinu, frekara eftirlits og uppsögn á samningi við Garðabæ um móttöku frárennslis.

Há sekt

Í lok mars tók Umhverfisstofnun málið til formlegrar rannsóknar. Þann 28. ágúst lagði stofnunin 20 milljón króna stjórnvaldssekt á Costco vegna brota á ákvæðum um mengunarvarnir.

Sjá einnig:

„Umtalsvert mengunarslys“ hjá Costco olli ólyktinni dularfullu í Hafnarfirði

„Umhverfisstofnun telur að verulega hafi skort á frumkvæði, vöktun og viðbragð af hálfu Costco vegna ofangreinds olíuleka. Í ljósi alvarleika brotsins og skorti á árvekni ákvað Umhverfisstofnun því að leggja á fyrrgreinda stjórnvaldssekt,“ sagði í tilkynningu stofnunarinnar.

Þótti það alvarlegt að olía hafi runnið í sjóinn í Hraunavík þar sem liggur Hvaleyrarhöfði, sem er friðlýstur fólkvangur, útivistar og fuglaskoðunarsvæði. Var lekinn til þess fallinn að valda tjóni á náttúru og heilsu fólks. Jarðolíuleifar fundust í sjávarseti í sýnagreiningu í kjölfar lekans.

Costco bendir á Olíudreifingu

Costco voru kynnt áformin um álagningu fyrirhugaðrar stjórnvaldssektar þann 27. júní árið 2023 og mótmæltu forsvarsmenn verslunarinnar henni.

Taldi Costco að lekinn hefið ekki haft umhverfisáhrif að öðru leyti en að olíulykt hefði fundist í Hafnarfirði. Costco hefði verið ómögulegt að hafa áhrif á hvert olíulekinn rann á endanum.

Þá sögðu þeir að starfsmaður Olíudreifingar hefði tengt fram hjá öryggiskerfinu í ágúst 2022 og að starfsmenn Costco hefðu ekki komist að lekanum fyrr en 30. desember 2022.

Olíudreifing bendir á Costco

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, sagði hins vegar í viðtali við mbl.is í ágúst 2023 að ábyrgðin lægi hjá Costco. Félaginu hefði mátt vera lekinn ljós í nóvember 2022, þegar þykkt lag af dísilolíu fannst í olíuskiljunni. Ekkert óeðlilegt hafði fundist í eftirliti Heilbrigðiseftirlitsins þremur vikum áður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá