Ole Gunnar Solskjær, fyrrum stjóri og leikmaður Manchester United, tók við Besiktas á dögunum og var hann spurður út í hugsanleg leikmannakaup í janúarglugganum.
Var Norðmaðurinn að sjálfsögðu spurður hvort það kæmi til greina að fá leikmenn frá United, þar á meðal Marcus Rashford og Casemiro, sem báðir er líklegir til að yfirgefa Old Trafford á næstunni.
„Ég var hjá Manchester United svo það verða félagaskiptafréttir eins og þessar. Casemiro og Rashford eru frábærir leikmenn en ég hef ekkert rætt við þá,“ sagði Solskjær.
„Ég naut þess að vera hjá Manchester United en þeim kafla er lokið. Ég hlakka til að starfa hjá Besiktas.“
Rashford er úti í kuldanum hjá Ruben Amorim og reynir að finna sér nýtt félag. Er hann til að mynda sterklega orðaður við Barcelona þessa dagana.
Casemiro er kominn vel yfir sitt besta og er til að mynda orðaður við Sádi-Arabíu.