Steinn Kári hefur komið víða við á ferli sínum og var til dæmis framkvæmdastjóri hjá PoppTíví og kom að stofnun 24 stunda, sem síðar varð Blaðið. Þar var hann markaðs- og auglýsingastjóri. Steinn Kári starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins DV ehf. um margra ára skeið.
Sjá einnig: Hreinsanir halda áfram hjá Sýn – Yfirmaður auglýsingamála stígur til hliðar
Í frétt DV á mánudag kom fram að starfsfólk væri undrandi á þeim vendingum sem nú virðast eiga sér stað innan fyrirtækisins. Varð Kolbrún Dröfn fjórða konan sem hverfur á braut frá fyrirtækinu á skömmum tíma.
Áður hafði verið greint frá því að Eva Georgs Ásudóttir væri hætt sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 eftir tæplega tveggja áratuga starf og stuttu síðar að náin samstarfskona hennar, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, ein þekktasta sjónvarpskona stöðvarinnar hefði sömuleiðis ákveðið að segja skilið við starf sitt sem dagskrárgerðarmaður. Þá var greint frá því stuttu síðar að Þóra Björg Clausen hefði sagt upp sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 eftir 10 ára starf.
DV hefur heimildir fyrir því að brotthvarf þessara öflugu og reynslumiklu starfsmanna hafi valdið titringi og einhverjir óttist að stórar breytingar séu fram undan.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, skrifaði bréf til starfsmanna í síðustu viku og fundaði með þeim þar sem hún blés á vangaveltur um drastískar breytingar.
Sagði hún útilokað að þekkt vörumerki eins og Bylgjan, Vísir, FM957 og fleiri myndu hverfa af sjónarsviðinu en sagði að frekari skoðun stæði yfir varðandi vörumerkin Vodafone og Stöð 2. Ekki væri tímabært að ræða hvort einhverjar breytingar yrðu á þeim.