fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Grátbiðja bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að endurskoða áform sín

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 22. janúar 2025 13:30

Ráðhús Reykjanesbæjar. Mynd: Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluvert var deilt á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær um þau áform meirihlutans að flytja bókasafn bæjarins úr ráðhúsinu í menningar- og samkomuhúsið Hljómahöllina. Í Hljómahöllinni eru fyrir Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, Rokksafn Íslands og nokkrir samkomusalir þar sem haldnir eru iðulega viðburðir af ýmsu tagi, til að mynda tónleikar, og einnig eru salirnir leigðir út fyrir veisluhöld. Deilt hefur verið um áformin í töluverðan tíma og vísað þá í að húsið rúmi ekki bókasafnið til viðbótar við þá starfsemi sem fyrir er en meirihluti bæjarstjórnar hefur haldið ótrauður áfram og kynnt hefur verið að bókasafnið opni í Hljómahöllinni í apríl næstkomandi. Starfsfólk tónlistarskólans hefur hins vegar grátbeðið bæjarstjórnina um að endurskoða flutningana.

Í tilkynningu á heimasíðu Reykjanesbæjar 16. janúar síðastliðinn segir að bókasafnið opni í Hljómahöllinni í byrjun apríl. Í tilkynningunni segir að Bókasafnið muni deila rými með Rokksafninu á fyrstu hæð hússins en verði jafnframt með þrjú aðskilin rými á annarri hæð, hnokkadeild, barnadeild og ungmennadeild. Þá muni ungmennadeildin t.d. flæða inn á biðsvæði nemenda tónlistarskólans sem vonast sé til að spili vel saman þar sem nemendur geti gluggað í bækur meðan beðið sé eftir því að fara inn í tíma.

Enn fremur muni svæðið sem Rokksafnið hefur verið á hingað til fara að hluta undir bókasafnið og sýningin hliðrist því til í húsinu. Samhliða verði hún endurnýjuð og meiri áhersla lögð á gagnvirkni og upplifun gesta.

Hljómahöllin í Reykjanesbæ

Hafnað

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar síðastliðinn föstudag var beiðni um að reisa geymsluhúsnæði á lóð Hljómahallar hafnað.

Þegar fundargerð fundarins var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í gær varð þessi liður tilefni til umræðu um flutning bókasafnsins í höllina.

Meirihluti bæjarstjórnar, sem samanstendur af fulltrúum Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Beinnar leiðar, hefur beitt sér fyrir flutningunum en minnihlutinn, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Umbót, hefur verið á móti.

Á fundinum báru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins upp harðorða bókun þar sem þeir andmæltu enn á ný flutningi bókasafnins í Hljómahöllina:

„Í Hljómahöll eru hagsmunir þeirra tveggja stofnana sem fyrir voru fótum troðnir, sérstaða þeirra og framtíðarsýn eru ekki tekin með í reikninginn. Við höfum ítrekað rætt Rokksafnið og hlutverk þess við að laða að stórar ráðstefnur, árshátíðir og aðra viðburði. Styrkur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og sérkenni hefur um áratuga skeið falist í samspili og öflugu hljómsveitarstarfi, svo eftir er tekið. Hljómahöllin var hönnuð og byggð að hluta í kring um skólann sem tengist hinni sterku tónlistarsögu- og menningu sveitarfélagsins órjúfanlegum böndum. Með þessum breytingum á húsnæðinu missir tónlistarskólinn sjö rými.“

Vísuðu Sjálfstæðismenn til óánægju starfsfólks og nemenda tónlistarskólans, foreldra nemendanna og margra bæjarbúa og sögðu að huga þurfi mun betur að þessum umdeildu flutningum.

Lausnir hafi verið fundnar

Bæjarfulltrúar meirihlutans svöruðu fullum hálsi og sögðu meðal annars í sinni bókun að lausnir hefðu verið fundar á hinum auknu þrengslum í Hljómahöllinni sem flutningur bókasafnsins þangað hefði í för með sér. Fyrir lægju teikningar að viðbyggingu sem nýtt yrði fyrir geymslur og lausnir hefðu verið fundnar þegar kæmi að aðstöðu fyrir tónlistarskólann:

„Hvað varðar starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þá er engin fyrirséð skerðing á námsframboði skólans og hefur starfsfólk eignaumsýslunnar fundið lausnir varðandi vinnuaðstöðu starfsfólks í samvinnu við stjórnendur skólans sem rúmast innan veggja Hljómahallar.“

Grátbiðja um endurskoðun

Ljóst er þó að kennarar og annað starfsfólk tónlistarskólans er ekki sátt við að bókasafnið flytji í húsið en í aðsendri grein í staðarblaðinu Víkurfréttum í gær óskar hópurinn eindregið eftir því að meirihlutinn endurskoði þessi áform sín. Er bæjarstjórnin beinlínis grátbeðin um það.

Í greininni er bent á að húsnæði tónlistarskólans hafi beinlínis verið hannað með tónlistarkennslu í huga og samkomusalirnir í húsinu nýtist mjög vel í starfsemi skólans. Í greininni segir enn fremur:

„Við erum ákaflega stolt og ánægð með skólann okkar og nemendurna. Við stóðum í þeirri trú að bæjaryfirvöld væru það líka.“

Færri fermetrar

Segir starfsfólkið að lítið samráð hafi verið haft við það vegna flutninganna. Það nefnir síðan öll rými sem tónlistarskólinn þarf að gefa eftir til bókasafnsins. Þetta séu heil kennslustofa, tvær æfingastofur, nótnabókasafn skólans, vinnustofa hljómsveitarstjóra og enn sé óljóst hvað verði um almenna vinnustofu kennara.

Í greininni segir að haldinn hafi verið fundur með starfsfólkinu og þar hafi meðal annars komið fram að bókasafnið og tónlistarskólinn muni þurfa að samnýta rými en það hafi ekki verið útskýrt til hlítar. Segir í greininni að bókasafnið þurfi að sögn 2000 fermetra fyrir starfsemi sína en það fái tæpa 1300 fermetra í Hljómahöllinni.

Starfsfólkið segir að rýmin í skólanum sem bókasafnið eigi að fá hafi verið tæmd sem auki þrengslin enn frekar. Óskar starfsfólkið eftir því að fá að sjá kostnaðaráætlanir vegna annarra mögulegra staðsetninga á bókasafninu og nefnir nokkra möguleika. Það segist gera sér grein fyrir mikilvægi bóksafnsins og að það hafi þurft á stærra húsnæði að halda en grátbiður bæjarstjórn um að endurskoða þessi áform:

„En það er ekki hægt að troða 10 ára barni í föt af 8 mánaða. Hvorugt nýtist, hvorugu líður vel og bæði líta illa út í augum almennings. Til hvers að sérhanna stóra og flotta byggingu með sértæka starfsemi í huga, en nota svo húsnæðið í eitthvað allt annað nokkrum árum síðar? Eru bæjarbúar sáttir við að svona sé farið með fjármuni bæjarins? Við grátbiðjum bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að endurskoða ákvörðun sína um að flytja Bókasafn Reykjanesbæjar í Rokksafnið og Tónlistarskólann.“

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Óhugnaður í Grafarvogslaug – Meintur barnaníðingur ákærður

Óhugnaður í Grafarvogslaug – Meintur barnaníðingur ákærður
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

María Rut skammar fyrri ríkisstjórn – „Ákvörðunin þegar haft í för með sér afbókanir og fjárhagslegt tjón“

María Rut skammar fyrri ríkisstjórn – „Ákvörðunin þegar haft í för með sér afbókanir og fjárhagslegt tjón“
Fréttir
Í gær

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Í gær

Leigusali í Grindavík vildi ekki gefa eftir leiguna þar sem vel væri hægt að búa í bænum

Leigusali í Grindavík vildi ekki gefa eftir leiguna þar sem vel væri hægt að búa í bænum
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti