Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSVE) hafa ályktað um Coda Terminal, fyrirhugaða kolefnisniðurdælingarstöð Carbfix í Hafnarfirði. Er áætlununum mótmælt og sagt allt of mörgum spurningum ósvarað enn.
„NSVE mótmælir fyrirhugaðri Coda Terminal kolefnisförgunarstöð Carbfix í Hafnarfirði,“ segir í ályktuninni.
Segir í ályktuninni að umhverfismat þurfi að vera heildrænt þar sem allar tengdar framkvæmdir séu metnar í einu lagi. Svo sem hafnarframkvæmdir, vegagerð og námuvinnsla. Einnig telur NSVE að umhverfismatskýrsla Coda Terminal sé meingölluð og standist ekki skilyrði. Hún veki upp fleiri spurningar en hún svari varðandi áhrif framkvæmda og starfsemi. Einkum þykir óásættanlegt að áhrifaþættir séu metnir eftir því sem starfseminni vindi fram.
„NSVE er andsnúið hugmyndum um innflutning á CO2 og telur fórnarkostnað vegna innflutnings og niðurdælingar í svo stórum stíl allt of mikinn. Förgun skal fara fram sem næst uppruna mengunar í samræmi við meginmarkmið umhverfisréttar,“ segir í ályktun NSVE. „Áætluð starfsemi Coda Terminal í svo mikilli nálægð við íbúðarbyggð er áhættusöm tilraunastarfsemi og skerðir stórlega lífsgæði íbúa í Vallarhverfi og Hvaleyrarholti. Staðsetningin er óásættanleg.“
Allt of mörgum spurningum sé ósvarað, meðal annars varðandi vatnsupptöku og niðurdælingu, mögulega jarðskjálfta, áhrif á grunnvatn, niðurfall eða hækkun vatnsborðs og lífríki stöðuvatna og tjarna.
„Óvíst er hvort neysluvatn, hitaveituvatn eða rafmagn til starfseminnar sé fáanlegt án nýtingar nýrra svæða s.s. Krýsuvíkursvæðisins. NSVE telur starfsemi Coda Terminal/Carbfix enn vera á tilraunastigi og því sé óráð að taka þvílíkt risastökk, og ekki tímabært að sækja um leyfi fyrir starfseminni,“ segja samtökin.
Að lokum er nefnt að samráð við íbúa Hafnarfjarðar sé ábótavant. Staðsetning og umfang verkefnisins hafi komið aftan að fólki og sveitarfélagið brugðist skyldu sinni við einhliða kynningu. NSVE styðji íbúakosningu um skipulagsbreytingar og starfsemi Coda Terminal í Hafnarfirði.