Það eru engar líkur á því að goðsögnin og fyrrum markavélin Wayne Rooney sé að taka að sér starf hjá landsliði Trínidad og Tóbagó.
Þetta staðfestir Dwight Yorke sem er landsliðsþjálfari heimalandsins en hann er fyrrum leikmaður Manchester United líkt og Rooney.
Rooney er atvinnulaus þessa stundina en hann var rekinn frá Plymouth í næst efstu deild á dögunum.
Yorke segir að það séu litlar sem engar líkur á því að Rooney verði hluti af þjálfarateymi landsliðsins.
,,Nei, nei, nei ég er nú þegar búinn að taka saman mitt starfslið og ég er viss um að Rooney myndi ekki taka þetta skref niður á við til að hjálpa okkur,“ sagði Yorke.
,,Ég er ánægður með þann stað sem við erum á í dag og ég get bara óskað Rooney hins besta og held að hann muni fá mörg tilboð frá fjölmiðlum. Það verður í lagi með hann.“