Örn Sigurðsson, arkitekt og stjórnarmaður í Samtökum um betri byggð, segir það hafa verði óhæfuverk hjá ríkinu gagnvart Reykvíkingum að planta að ræna kjörlendi í Vatnsmýrinni undir flugvöll. Þá sé misvægi atkvæða hvergi meira í vestrænum lýðræðisríkjum en á Íslandi.
„Í kjölfar þess að fjárvana Samtök um betri byggð unnu kosningu 2001 um lokun herflugvallar í Vatnsmýri 2016 var teningum kastað. Upp reis harðsnúin og ófyrirleitin en vel fjármögnuð hreyfing svokallaðra flugvallarvina með tóm öfugmæli, útúrsnúninga, hálfsannleika, þvætting og lygar að vopni,“ segir Örn í grein á Vísi í tilefni af kvartaldar starfi samtakanna.
Segir Örn að við eðlilegar aðstæður í hinum frjálsa og þróaða heimi sé borgarskipulag ekki mjög flókin fræðigrein. Hvarvetna sé almannaheill í fyrirrúmi, ekkert leynimakk, samráð við íbúa mikið og allar áætlanir miðaðar við að gagnast sem flestum. En ekki á Íslandi.
„Árið 1946 fundu afspyrnulélegir ráðamenn á Íslandi hins vegar upp á því í fullkomnum aulaskap og vanþekkingu að snúa á hvolf algildum sannindum og mörg þúsunda ára reynslu mannkyns af borgarmótun,“ segir Örn. „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga í Vatnsmýri, þar sem skyldi koma þétt og blönduð miðborgarbyggð og negldu þess í stað niður herflugvöll Breta sem syðri brúarsporðinn í loftbrú Flugfélags Akureyrar.“
Um leið hafi Reykvíkingar verið sviptir allir lofthelgi yfir Nesinu vestan Elliðaáa og verið rændir skipulagsvaldi í skjóli og í skugga ótrúlegs dáðleysis kjörinna fulltrúa Reykvíkinga í borgarstjórn og á Alþingi. Allan lýðveldistímann og lengur hafi þessir kjörnu fulltrúar komið af landsbyggðarstýrðum framboðslistum landsmálaflokka. Þeir séu vanhæfir til að vinna að hagsmunum borgarbúa enda þjakaðir af þöggun og þrælsótta af völdum misvægis atkvæða.
„Við slíkar aðstæður er ekkert lengur einfalt og eðlilegt í borgarskipulaginu. Uppspuni, lygar, svik og prettir spinnast saman í óleysanlega vítahringi, sem enginn hvorki vill né getur leyst,“ segir Örn. „Glundroði ríkir og heildarmyndin og samhengi hlutanna er löngu horfið sjónum flestra. Kjörnir fulltrúar óttast svipuhöggin og gera allt til að halda djobbinu og viðhalda flugi í Vatnsmýri og baneitruðum og síversnandi afleiðingum, sem það veldur borgarbúum, þjóðarbúinu og landsmönnum öllum, einnig þeim, sem beita sér í þágu þessa gamla herflugvallar.“
Örn segir að Samtök um betri byggð hafi oft verið sökuð um róttækni og óbilgirni vegna einarðrar afstöðu sinnar. Bendir hann þó á að samtökin geti aldrei farið út fyrir þann þrönga ramma og forsendur um að allir menn séu jafnir, að lýðræðislegur meirihlutavilji og almannaheill séu alltaf í fyrirrúmi.
„Ekki eru allir jafnir á Íslandi og hafa aldrei verið,“ segir hann og rekur söguna aftur í aldir og fram á 19. öld þegar bændur réðu öllu. Frá heimastjórn og til dagsins í dag hafi arfleið gamla bændasamfélagsins, með sínu misvægi atkvæða, svifið yfir, skekkt og bjagað allt þjóðlífið, áætlanir, ákvarðanir, ráðstafanir, störf þingsins og sjálft samtalið.
„Samræður á eðlilegum og vitrænum grundvelli eru útilokaðar við þessar aðstæður. Fáir sjá skóginn fyrir trjánum, ekki heildarmyndina og ekki samhengi hlutanna,“ segir Örn. „Staðreyndum og röksemdum er sópað út af borðinu. Samtök um betri byggð tala samt sínu máli á þessum skrumskælda vettvangi og leitast við að segja það sem segja þarf.“
Hvergi í vestrænum lýðræðisríkjum sé atkvæðamisvægi meira en á Íslandi. Feneyjarnefnd ÖSE hafi margoft bent íslenskum stjórnvöldum á þennan alvarlega misbrest.
„Aðgangi að lögum er misskipt. Í íslensku lagasafni eru um 800 virk lög og lagabálkar. Sé annar helmingur þeirra frá 20. öld þegar misvægi var amk 300% og hinn frá 21. öld þegar misvægið er ekki „nema“ 100% sést að það hallar mjög á hag hinna valdalausu í íslensku samfélagi,“ segir Örn. „Við þetta bætist að Alþingi sendir árlega og með stuttu árabili frá sér lög og áætlanir, sem áratugum saman hafa hyglað þeim, sem búa við aukið vægi atkvæða í þremur kjördæmum á landsbyggðinni, ma. árleg fjárlög og 5 ára samgönguáætlanir. Verðugt rannsóknarefni!“
Að lokum segir Örn að óhæfuverk ríkisins gagnvart Reykvíkingum frá árinu 1946 sé ekki fyrnt. Bótarétturinn sé vissulega fyrndur en hægt sé að taka upp lóðaleigu nú þegar af flugbrautum gamla herflugvallarins.
„Það er reyndar ein helsta skylda kjörinna fulltrúa að fara vel með eignir og auðlindir sveitarfélags. Taka lóðarleigu í Vatnsmýri er því mikilvægur hluti skyldustarfa kjörinna fulltrúa Reykvíkinga,“ segir hann.