Ruben Amorim, stjóri Manchester United, trylltist inni í búningsklefa eftir tap liðsins gegn Brighton á sunnudag. The Athletic segir frá.
United tapaði leiknum 1-3 og heldur skelfilegt gengi liðsins áfram. Er það í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Amorim tók við af Erik ten Hag síðla hausts en hefur ekki tekist að snúa gengi liðsins við.
The Athletic segir frá því að Amorim hafi ekki látið sér það nægja að hrauna yfir leikmenn inni í klefa eftir leikinn gegn Brighton, heldur lét hann bræði sína einnig bitna á munum í klefanum, svosem sjónvarpi sem sá vel á eftir kast Portúgalans.
Samkvæmt fréttinni urðu leikmenn steinhissa þar sem Amorim er yfirleitt mjög yfirvegaður, þó hann sé ósáttur við eitthvað.
Amorim fór svo mikinn í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn og sagði lið United nú mögulega það versta í sögu félagsins.