fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu

Eyjan
Þriðjudaginn 21. janúar 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gunnarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tekur formlega við þingsæti Bjarna Benediktssonar, þegar sá síðarnefndi mun segja af sér þingmennsku þegar þing kemur saman 4. febrúar næstkomandi, neitar því að vera að vinna að framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Jón fer enn fremur ekki í grafgötur með að hann sé ósáttur við framgöngu varaformanns flokksins Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í hans garð og segir hana hafa sýnt sér vanvirðingu.

Jón ræddi þessi mál í gærkvöldi í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni. Björn Þorláksson ræddi við Jón og spurði hvort að hann eða einhverjir á hans vegum væru að kanna hvort áhugi væri fyrir því meðal Sjálfstæðismanna að Jón taki við formennskunni af Bjarna, þegar sá síðarnefndi víkur úr formannsstólnum á komandi landsfundi flokksins. Hávær orðrómur hefur verið um að sú sé raunin en Jón neitar því að hann eða nokkur á hans vegum séu að vinna að framboði til formanns:

„Það getur vel verið að einhverjir séu að hringja og kanna farveginn einhvers staðar en ég veit svo sem ekkert um það.“

Jón segist þó hafa fengið töluverða hvatningu, frá fólki víða um land, til að bjóða sig fram til formanns en reikni ekki með því að gefa kost á sér. Hann útiloki það þó ekki alfarið en stefni ekki að því og sé ekki að vinna að framboði.

Guðlaugur Þór ekki líklegastur

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins bauð sig fram til formanns gegn Bjarna á síðasta landsfundi. Hann á sterkt bakland í flokknum og er af mörgum talinn líklegur sigurvegari ef hann ákveður að bjóða sig fram til formanns. Jón tekur hins vegar ekki undir það. Hann segir að mesta vinnan að formannsframboði um þessar mundir fari fram á vegum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þingmanns, sem hefur opinberað að hún sé áhugasöm um framboð til formanns, og hún sé mjög frambærilegur frambjóðandi. Hann segist telja að vinna að formannsframboði Áslaugar Örnu sé lengra á veg komin en hjá Guðlaugi Þór og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem einnig er áhugasöm um formannsframboð.

Jón segir stöðu Áslaugar sterkasta um þessar mundir en allt sé breytingum háð og fimm vikur séu til landsfundar.

Þórdís Kolbrún

Þórdís Kolbrún bauð sig fram í annað sætið á lista Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi, í kosningunum í nóvember síðastliðnum, gegn Jóni og hafði betur. Færði hún sig úr Norðvesturkjördæmi en því hefur haldið fram að Jón hafi lesið um þessa ákvörðun hennar í fjölmiðlum og gramist það mjög að Þórdís Kolbrún skuli ekki sjálf hafa látið hann vita. Jón staðfestir það í viðtalinu við Samstöðina. Jón tók á endanum fimmta sætið á listanum en flokkurinn fékk 4 þingmenn kjörna í kjördæminu en afsögn Bjarna, sem var í fyrsta sæti, tryggir Jóni áframhaldandi þingmennsku. Aðspurður um hvort hann hugsi Þórdísi Kolbrúnu þegjandi þörfina segir Jón:

„Menn geta alltaf velt því fyrir sér hvenær manns tími er kominn. Ég ákvað að taka þennan slag við varaformanninn, þó að það væri kannski á móti öllum líkum. Náði bara fínum árangri í því. Ég veit að margir félagar mínir í kjördæminu, á vettvangi kjördæmisráðs, gátu ekki hugsað sér að varaformaðurinn yrði felldur, hjá okkur. En að sama skapi mislíkaði fólki hvernig aðdragandinn að þessu var og ég var ekki sáttur við hann. Ég get alveg sagt það.“

Vanvirðing

Jón fer ekki í grafgötur með það að honum hafi mislíkað þessi framkoma Þórdísar Kolbrúnar í sinn garð og hún hafi átt að sýna honum þá virðingu að tilkynna honum þetta fyrir fram og þá hefði gefist tækifæri til að ræða stöðuna:

„Mér fannst varaformaður flokksins sem ég var búinn að starfa með í … ég veit það ekki … ætli það séu ekki hátt í tíu ár, af þessum tæpu 18 árum sem ég er búinn að vera á þingi, sem við Þórdís Kolbrún höfum átt eitthvað saman að sælda. Frá því að hún var framkvæmdastjóri þingflokks á sínum tíma. Að ég skyldi lesa um þetta í blöðunum, þó að umræðan og hvíslið í flokknum hafi kannski verið að gefa til kynna að þetta yrði svona, að þá hefði hún átt að sýna mér þá virðingu að við settumst að minnsta kosti niður og ræddum þessi mál. Það var ekki gert og þess vegna tókum við slaginn og pólitík er eins og hún er og ég tapaði þeim slag.“

Það virðist því ólíklegt að Jón muni styðja Þórdísi Kolbrúnu í hugsanlegu framboði hennar til formennsku í flokknum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt