Sölvi tekur við af Arnari Gunnlaugssyni, sem tók við sem þjálfari karlalandsliðsins á dögunum, en Sölvi var áður aðstoðarmaður hans í Víkinni. Það hefur lengi legið í loftinu að Sölvi taki við af Arnari. Var hann til að mynda í startholunum í fyrra þegar viðræður milli Víkings og Norrköping um Arnar áttu sér stað fyrir um ári síðan.
„Við náðum að verjast tilboðum erlendis frá í fyrra svo Sölvi fékk eitt ár í viðbót til að læra. Við erum mjög ánægðir með starf Arnars og að fylla svona í hans skarð,“ sagði Kári við 433.is í dag.
Kári hefur aldrei farið leynt með það við Sölva að hann yrði arftaki Arnars í Fossvoginum.
„Þetta var eitthvað sem ég reyndi að láta hann vita af með óbeinum hætti, að þetta væri aðstoðarmannahlutverk með það að leiðarljósi að þegar að því kæmi myndi hann taka við þessu. Það er enginn þjálfari eilífur. Arnar hefði aldrei nokkurn tímann verið rekinn úr Víkinni en hann vildi halda áfram með sinn feril og prófa eitthvað nýtt. Það er náttúrlega skref upp á við fyrir hann að taka við íslenska landsliðinu,“ sagði hann.
„Arnar er frábær þjálfari og sennilega sá besti sem við höfum haft en við erum gríðarlega spenntir fyrir því sem er að koma. Þetta er ungt teymi og kannski ekki mikil reynsla en er með gríðarlega þekkingu á því sem við höfum verið að gera og hvað við ætlum að fara að gera. Það eru mjög spennandi tímar framundan.“