fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Efling klagar Subway og Hard Rock: Alþjóðlegir risar látnir vita af meintum réttindabrotum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. janúar 2025 13:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sent erindi til sérleyfis veitingakeðjanna Subway IP LLC og Hard Rock Cafe International. Þar er vakin athygli móðurfyrirtækjanna á þátttöku sérleyfishafa þeirra hér á landi í meintum réttindabrotum gegn vinnandi fólki, ólögmætu athæfi og lagabrotum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

Grunnt hefur verið á því góða á milli Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) og Eflingar að undanförnu, en Efling hefur gagnrýnt SVEIT harðlega fyrir að gera kjarasamning við nýtt stéttarfélag, Virðingu, þar sem starfsmenn fá að sögn verri kjör en þeir höfðu samkvæmt kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins.

Hefur Efling bent á að Subway og Hard Rock Café séu á meðal þeirra fyrirtækja sem virðast standa að baki gervikjarasamningi SVEIT við Virðingu þrátt fyrir erindi frá Eflingu og opinbera umræðu síðustu vikurnar.

Sjá einnig: Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu

Í tilkynningu Eflingar kemur fram að í erindum sínum hafi Sólveig Anna bent á að Stjarnan ehf. Sem heldur á sérleyfi fyrir Subway á Íslandi, og HRC Ísland ehf, sem heldur á sérleyfi fyrir Hard Rock Cafe á Íslandi, hafi að líkindum bæði tekið þátt í stofnun ólögmæts gervistéttarfélags, sem stýrt sé af atvinnurekendum.

„Vísar Sólveig Anna þar til þess að bæði fyrirtækin séu aðilar að SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, sem gert hafi ólögmætan kjarasamning við gervistéttarfélagið Virðingu. Efling hefur ítrekað bent á að Virðing sé gervistéttarfélag, stofnað af fyrirtækjaeigendum. Stofnfélagar og stjórnarmenn í Virðingu eru þannig starfandi veitingamenn eða fólk með náin vensl við veitingamenn, og fólk nátengt inn í stjórn SVEIT. Sömuleiðis hefur Efling birt ítarlegan samanburð á gervikjarasamningi SVEIT og Virðingar annars vegar og Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Þar er bent á að ekki einasta innihaldi gervikjarasamningurinn mun verri kjör fyrir starfsfólk heldur í ofanálag séu í honum fjölmörg ákvæði sem brjóta gegn íslenskum lögum og Evrópureglugerðum,“ segir í tilkynningunni.

Sjá einnig: Sigurður G. mjög ósáttur við Sólveigu Önnu og Eflingu – „Þetta er þekkt taktík“

Þá mun Sólveig Anna hafa sagt að ekki sé eungis grafið undan réttindum starfsfólk heldur einnig vegið að orðspori fyrirtækjanna.

„Þó Efling geri sér grein fyrir að sérleyfishafar starfi sem sjálfstæð eining undir vörumerki ykkar, þýða tengslin að framganga þeirra gætu brugðið slæmu ljósi á orðspor ykkar á heimsvísu,“ er haft eftir Sólveigu Önnu.

Í erindunum óskar Sólveig Anna eftir því að Subway IP LLC og Hard Rock Cafe International rannsaki hegðun Stjörnunnar ehf. og HRC Íslands ehf, til að „tryggja að allir sérleyfishafar sem starfi undir ykkar vörumerki uppfylli gildandi vinnulöggjöf, sem og hvers kyns siðferðileg vinnubrögð tengd fyrirtækinu“,“ eins og það er orðað í tilkynningu Eflingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus