Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir, yfirmaður auglýsingamála Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, er hætt störfum hjá Sýn. Þetta herma öruggar heimildir DV. Kolbrún Dröfn hefur gríðarlega reynslu af sölu auglýsinga hjá fjölmiðlum. Hún starfaði í 13 ár hjá Morgunblaðinu en tók síðan við starfi sölustjóra hjá DV í nokkur ár. Eftir viðkomu hjá Billboard sem sölustjóri tók hún síðan við áðurnefndri yfirmannsstöðu hjá Sýn í ágúst 2021.
Tilkynnt var um brotthvarf Kolbrúnar Drafnar nú í morgun og er starfsfólk undrandi yfir vendingunum.
Óhætt er að segja að gustað hafi um höfuðstöðvar Sýnar á Suðurlandsbraut undanfarnar vikur en Kolbrún Dröfn er fjórða öfluga konan sem hættir hjá fyrirtækinu. Fyrst var greint frá því að Eva Georgs Ásudóttir væri hætt sem sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 eftir tæplega tveggja áratuga starf og stuttu síðar að náin samstarfskona hennar, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, ein þekktasta sjónvarpskona stöðvarinnar hefði sömuleiðis ákveðið að segja skilið við starf sitt sem dagskrárgerðarmaður.
Sjá einnig: Hvað er í gangi hjá Sýn? Þriðja kanónan yfirgefur Suðurlandsbrautina
Nokkrum dögum síðan var greint frá því að Þóra Björg Clausen hefði sagt upp störfum sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 eftir tíu ára starf.
Brotthvarf þessara öflugu kvenna hefur valdið miklum titringi innan fjölmiðlahluta Sýnar og hefur starfsfólk óttast að þær séu undanfari stórra breytinga, eins og til að mynda lokun fréttastofu Stöðvar 2. Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, brást í síðustu viku við ólgunni með því að skrifa bréf til starfsmanna og funda með þeim þar sem línurnar voru lagðar og slíkar hugmyndir slegnar að mestu út af borðinu.
Sagði hún útilokað að þekkt vörumerki eins og Bylgjan, Vísir, FM957 og fleiri myndu hverfa af sjónarsviðinu en sagði að frekari skoðun stæði yfir varðandi vörumerkin Vodafone og Stöð 2. Ekki væri tímabært að ræða hvort einhverjar breytingar yrðu á þeim.
Þá hefur verið hvískrað um að staða Herdísar sjálfrar í forstjórastóli sé veik en hlutabréf félagsins hafa hrunið í verði og tiltrú fjárfesta á fyrirtækinu lítil.
Mbl tekur upp frétt DV og bætir við að nýlega hafi tvær konur hætt störfum sem yfirmenn hjá Vodafone. Sesselía Birgisdóttir, sem var framkvæmdastjóri fjarskipta hjá Vodafone, lét af störfum í ágúst í fyrra. Hún var ráðin 5. janúar 2023 sem framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála Vodafone. Sesselía sat í stjórn Sýnar hf. frá mars 2022 og vék úr stjórn við ráðninguna.
Kristín Friðgeirsdóttir sem ráðin var sem fjármálastjóri Sýnar hf. í júní árið 2021 lét af störfum um mánaðamótin febrúar/mars 2024.