fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 20. janúar 2025 09:00

Haukur Ægir Mynd: Skjáskot YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haukur Ægir Hauksson afplánar nú fimm ára fangelsisdóm á Litla Hrauni fyrir þátt sinn í Sólheimajökulsmálinu svokallaða, en brotin voru samkvæmt ákæru framin árið 2023 fram til 11. apríl 2024. Þann 3. desember 2024 fengu 15 einstaklingar dóm í málinu allt frá tveggja mánaða skilorðsbundnu fangelsi til sex ára fangelsis. Jón Ingi Sveinsson hlaut þyngsta dóminn, sex ára fangelsi. Haukur Ægir og og Gunnlaugur J. Skarphéðinsson hlutu þann næstþyngsta, fimm ára fangelsi hvor.

Haukur Ægir var fyrir viku ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að taka mann kyrkingartaki þann 11. mars 2023.

Í Spjallinu með Frosta Logasyni tjáir Haukur Ægir sig um bæði málin, sem hann furðar sig á; einangrun og þungur dómur í Sólheimajökulsmálinu sem hann þurfi að sitja inni fyrir, meðan honum hafi verið sleppt daginn eftir að hafa tekið manninn kyrkingartaki og Haukur síðan verið frjáls ferða sinna vegna málsins fram að handtökunni vegna Sólheimajökulsmálsins.

„Það sem ég gerist í raun og veru sekur um er að sækja þetta burðardýr og taka á móti efnum. En ég fæ jafn þungan dóm og gaurinn sem skipulagði málið samkvæmt lögreglu,“ segir Haukur Ægir um dóminn vegna Sólheimajökulsmálsins.

Hann hefur áfrýjað þeim dómi og segist hafa verið miklum órétti beittur þar sem hann hafi verið dæmdur á grundvelli laga um skipulagða brotastarfsemi sem hann hafi alls ekki gerst sekur um.

„Í öllu þessu Sólheimajökulsmáli sem lögreglan kaus að kalla það er ég með næstþyngsta dóminn. Það sem þeir eru að gera er að það eru teknar geymslur með einhverjum fíkniefnum, ég man ekki hvenær það var. September minnir mig 2023 eru teknar einhverjar geymslur með 3 kílóum af einhverjum fíkniefnum hjá einhverju fólki sem ég þekki ekki neitt. Og þessi 3 kg eru að deilast einhvern veginn á, ég man ekki einu sinni hvað við vorum mörg í þessu Sólheimajökulsmáli, Ég er að taka semsagt skellinn á þessum 3 kg sem voru tekin um það leyti sem ég er í meðferð.“

Segir réttarkerfið ekki réttlátt

Hann segist ekki hafa hugmynd um hvaða glæp hann eigi að hafa framið. „Hvenær ég framdi hann, hvaða hagnað ég hafði af honum, með hverjum og hvaða efni voru til umræðu eða neitt skilurðu?“

Haukur Ægir segir réttarkerfið ekki réttlátt og mikinn þunga settan í fíkniefnamálum, hann hafi setið í einangrun og síðan farið beint í afplánun. Ef hann hefði fengið tveggja ára dóm hefði hann getað tekið hann út í samfélagsþjónustu.

„Ég spurði lögfræðinginn minn af hverju ég mætti ekki koma út bara og bíða eftir afplánun. Þá vildi hann meina að þetta sé vegna réttarvitundar almennings. Svo almenningi sé ekki misboðið ef ég labba göturnar og er að bíða eftir afplánun. Og þá spyr ég; „Hversu margir nauðgarar, ofbeldismenn og barnaníðingar eru að bíða eftir afplánun núna? Það er alveg slatti, hver er réttarvitund almennings?“

Ákærður fyrir tilraun til manndráps í mars 2023

Haukur Ægir var eins og áður sagði eftir dóminn í Sólheimajökulsmálinu ákærður fyrir tilraun til manndráps. Upphaflega átti sú ákæra að vera tekin fyrir samhliða Sólheimajökulsmálinu, en saksóknari dró hana til baka enda beindist hún aðeins að einum aðila málsins, Hauki Ægi.

Um þá ákæru segir hann:

„Það er miklu meira galið en þessi skipulagða brotastarfsemi. Ástæðan fyrir að ég er að koma í þetta viðtal er að það er búið að draga nafn mitt í fjölmiðla og ákæran birt. Ég er sagður hafa tekið hann og kyrkt hann i sjö mínútur og ég hafi ekki látið af verknaðinum fyrr en lögreglan kom á svæðið og losaði manninn úr takinu hjá mér.“

Segist Haukur Ægir hafa fengið símtal frá vinkonu sinni sem segði manninn hafa brotið kynferðislega á sér. Haukur Ægir hafi því mætt á staðinn ásamt annarri vinkonu sinni.

„Um leið og við ætlum að hringja í lögguna þá veitist hann að vinkonu minni, byrjar að kýla í hana, sem verður til þess að brjótast út slagsmál þarna. Hann tekur upp kylfu, sem er á stærð við litla hafnaboltakylfu og hann neglir mig eins fast og hann getur í ennið, sem stökkbólgnar og það kemur skurður. Fyrir einhverja mildi rotast ég ekki. Ég næ honum niður og í hálstak. Vinkona mín nær af honum spýtunni og ég öskra á hana um leið og ég næ honum í hálstakið að hringja í lögguna sem hún gerir og biður um löggu og sjúkrabíl. Sjúkrabílinn af því hann var búinn að negla mig af öllu afli í ennið með kylfunni og vinkonu mína út um allan líkamann.

Ástæðan fyrir því að þeir vita að þetta séu sjö mínútur sem ég held manninum er að það tekur lögguna sjö mínútur að koma á svæðið. Hann er með meðvitund allan tímann og ég öskra á vinkonu mína að hringja aftur í lögguna af því ég er búinn á því í höndunum að halda honum af því hann var að brjótast um eins mikið og hann gat af því hann vildi vera farinn áður en löggan kom.“

Haukur Ægir segir logið upp á hann í ákærunni. „Þeir ljúga meira að segja í skýrslunum. Það segir hérna: „Haukur var tregur til að sleppa aðilanum þar sem hann sagðist vera að berjast um. Þetta er sturlun. Ég ætlaði ekki einu sinni að segja fjölskyldunni frá þessu eða neitt, ég ætlaði bara að díla við þetta í dómnum, þar til ég sé þetta komið í blöðin. Þar sem ég er nafngreindur með fullu nafni og farið með rangt mál þar sem segir að ég hafi verið að kyrkja hann í sjö mínútur þar til lögregla kom og bjargaði honum frá mér. Þetta er svo ógeðslega fokking ósanngjarnt og ómannlegt af saksóknara að mér býður við þessu.“

Meintur þolandi dæmdur fyrir kynferðisbrot þetta kvöld

Segir hann manninn þegar hafa hlotið 10 mánaða dóm fyrir ofangreint kynferðisbrot.

„Hann þarf ekki einu sinni að koma inn í fangelsi, hann getur tekið þetta út í samfélagsþjónustu. Og honum var dæmt að greiða fórnarlambinu 500 þúsund. Saksóknari fer fram á að ég greiði þessum manni 3 milljónir. Þannig að hann kemur út úr þessu kvöldi 2,5 milljónir i plús.

Ef ég er svona rosalega hættulegur og ég hafi ætlað að svipta mann lífinu þetta kvöld af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Rýmingarreitirnir á Austurlandi

Rýmingarreitirnir á Austurlandi
Fréttir
Í gær

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“