Sjá einnig: Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eins og frægt er orðið var Þórður Snær ofarlega á framboðslista flokksins í Reykjavík fyrir kosningarnar sem fram fóru í nóvember, en hann hann lýsti því yfir að hann myndi ekki taka sæti á Alþingi í kjölfar mikillar umfjöllunar um óviðeigandi bloggskrif hans á árunum 2004 til 2007.
Var í skrifunum meðal annars fjallað með niðrandi og óviðurkvæmilegum hætti um nafngreindar og þekktar konur.
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins gagnrýnir ráðninguna á Þórði Snæ harðlega.
„Undir kvöldmat á föstudag kom „lítil tilkynning“ á Facebook, en þá tilkynnti Þórður Snær Júlíusson í aðeins 84 orðum að hann hefði tekið til starfa sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar. Aðeins eru tveir mánuðir frá því að Þórður Snær tilkynnti í 824 orðum að hann tæki ekki þingsæti fyrir Samfylkingu næði hann kjöri,“ segir í staksteinum Moggans í dag.
„Þórður Snær nefnir ekkert sem breyst hafi á þessum tveimur mánuðum, sem geri það að verkum að hann sé nú tilvalinn til að „hjálpa við að breyta samfélaginu til hins betra með öflugri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og frábærum hópi þingmanna“.“
Að mati staksteinahöfundar mun Þórður Snær ugglaust nýtast Samfylkingunni á þingi en hann spyr síðan:
„En geta kjósendur annað en spurt sig hvort allt orðagjálfrið þegar hann sagðist ekki taka kosningu hafi verið annað en hræsni, beinlínis til þess að blekkja kjósendur? Nú er hann umyrðalaust búinn að koma sér fyrir í þinginu á kostnað almennings, en almenningur fékk ekkert um það að segja. Kjósendur höfðu ekkert val um það og geta ekki einu sinni hafnað honum í næstu kosningum.“
Þess má geta að heillaóskum hefur rignt yfir Þórð Snæ í athugasemdum á Facebook-síðu hans og koma þær meðal annars frá núverandi og fyrrverandi þingmönnum. „Gott að vita af þér á góðum stað. Gangi þér vel,“ segir til dæmis Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. „Frábærar fréttir. Innilegar hamingjuóskir með starfið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson. „Mikið er ég glöð. Gangi þér áfram vel. Þú ert mikilvægur,“ segir Rannveig Guðmundsdóttir sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2003 til 2007.