Morgunblaðið hefur að undanförnu býsnast yfir því að Dagur B. Eggertsson hafi fengið tvöfaldar greiðslur í desember en blaðinu virðist hafa yfirsést að Rósa Guðbjartsdóttir, fyrrum bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, er sú sem fékk mest af nýjum þingmönnum sem koma úr umhverfi sveitarstjórna. Rósa fékk samtals 5,8 milljónir króna í laun í desember, Dagur, Pavel og Kolbrún, borgarfulltrúar, fengu innan við 5 milljónir króna hvert um sig og Anna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði og nýr þingmaður Samfylkingar, fékk 5,6 milljónir króna í laun í desember. Bæði RÚV og Vísir hafa skýrt frá þessum staðreyndum.
Orðið á götunni er að hér sé á ferðinni framhald af fjórtán ára samfelldu einelti blaðsins gagnvart Degi. Hann hefur einkum unnið sér það til saka að hafa haft forystu um að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavíkurborg allt frá árinu 2010. Dagur hefur myndað fjóra meirihluta í borginni sem hafa skilið Sjálfstæðisflokkinn eftir valdalausan og vansælan í minnihluta í nær 15 ár. Engu hefur breytt þó blaðið og mismunandi borgarfulltrúar flokksins hafi ólmast gegn Degi og meirihlutanum. Kjósendur hafa kveðið upp úr á fjögurra ára fresti og ekki viljað hleypa Sjálfstæðisflokknum til valda í borginni. Í síðustu kosningum mældist fylgi flokksins í borginni hið næstminnsta í prósentum frá upphafi. Allt hefur verið reynt til að sverta Dag, en án árangurs.
Morgunblaðið hefði að sjálfsögðu átt að leggja höfuðáherslu á að Rósa Guðbjartsdóttir, Sjálfstæðisflokki, hefði fengið hæstu tvöföldu launin. Starfskjör sveitarstjórnarmanna eru reyndar vægast sagt einkennileg og virðast ekki taka mið af stærð eða mikilvægi einstakra sveitarfélaga. Í síðsta tekjublaði Frjálsar verslunar sem birti upplýsingar um tekjur fólks árið 2023 kom á daginn að umrædd Rósa, þá bæjarstjóri í Hafnarfirði, var með um 2,9 milljónir króna í laun á mánuði árið 2023 á sama tíma og borgarstjórinn í Reykjavík var með 2,6 milljónir króna í laun á mánuði. Íbúafjöldi Reykjavíkur er í kringum 140 þúsund en rúm 30 þúsund í Hafnarfirði. Að sjálfsögðu væri því full ástæða til að greiða mun hærri laun fyrir að stýra risasamfélaginu Reykjavík en öðrum mun minni og einfaldari sveitarfélögum. En það er önnur saga.
Orðið á götunni er að það veki furðu að sveitarstjórnarmenn sem nú taka sæti á Alþingi skuli ekki áfram sinna störfum í sveitastjórnum samhliða eins og áður tíðkaðist. Rósa Guðbjartsdóttir ætlar að halda áfram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar en aðrir hafa sagt af sér. Rósa er greinilega sú eina af þeim sem lítur ekki á þingstörfin sem fullt starf. Þegar Davíð Oddsson tók við sem forsætisráðherra árið 1991 og lét af starfi borgarstjóra, hélt hann samt áfram setu í borgarstjórn sem borgarfulltrúi út kjörtímabilið. Hann hefur þá greinilega ekki litið á ráðherraembættið sem fullt starf. Björn Bjarnason var boðinn fram sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins árið 2002 en tapaði stórt fyrir Reykjavíkurlistanum. Þá fór fylgi flokksins í fyrsta skipti niður í 40 prósent í borginni og hefur ekki jafnað sig síðan. Björn sat í borgarstjórn út kjörtímabilið og jafnframt á Alþingi. Albert Guðmundsson átti bæði sæti í borgarstjórn og á Alþingi um árabil en þó ekki eftir að hann varð ráðherra.
Orðið á götunni er að niðurrifsfólkið í Hádegismóum þurfi að fletta betur upp staðreyndum áður en eineltisútspilunum er slengt fram. Þegar staðreyndir hitta mann illa í hausinn er það svo vont – og blátt áfram vandræðalegt.