Fertugur Ungverji var á ferð með háhraðalest í Þýskalandi í síðustu viku. Þegar lestin stoppaði í Inglostadt, brá hann sér út til að reykja.
Þegar dyrnar á lestinni lokuðust, áttaði hann sig á að hún væri að fara af stað og hann kæmist ekki með. En hann var ekki tilbúinn til að gefast upp, því taskan hans var í lestinni.
Hann tók sér því stöðu á milli tveggja lestarvagna frekar en að verða strandaglópur í Inglostadt. Hann þurfti að ríghalda sér í rafmagnsleiðslur næstu 30 kílómetrana því lestir af þessari gerð aka á allt að 280 km/klst.
Það vildi manninum til happs að vitni sáu til hans og gerðu ráðstafanir til að akstur lestarinnar yrði stöðvaður. Það var gert í bænum Kinding í Bæjaralandi. Þar var maðurinn handtekinn. Hann var kærður fyrir að hafa ferðast án þess að greiða fargjaldið og fyrir að hafa truflað rekstur lestarkerfisins.