Myndbandið segir eiginlega bara hálfa söguna um opnun þessarar verslunar sem er nýjasti kaflinn í undarlegu sambandi Kim-fjölskyldunnar, sem ræður lofum og lögum í landinu, og Svíþjóðar.
IKEA-húsgögn og smámunir er nú yfirleitt ekki eitthvað sem verður tilefni fréttaskrifa, nema núna. Ástæðan er að í splunkunýrri verslunarmiðstöð í Pyongyan eru IKEA-vörur til sölu. Upplýsingum um þetta hefur verið dreift á kínverskum samfélagsmiðlum og þannig náðu þær til okkar hér á Vesturlöndum og þá væntanlega einnig til IKEA.
Í kringum jólin var myndbandi deilt á kínverska samfélagsmiðlinum Douyin, sem er hliðstæða TikTok. Í myndbandinu er sýnt frá Poyang og meðal annars er farið í lúxusverslunarmiðstöðina sem opnaði 2023. Bild segir að það sé kínverskur námsmaður sem standi á bak við notendanafnið sem birti myndbandið.
Ekki er marga viðskiptavini að sjá í verslunarmiðstöðinni en á upptökunni sjást til dæmis merkjavöruverslanir á borð við Adidas, Chanel og Dior og svo auðvitað IKEA.
Niklas Swanström, sérfræðingur í norðurkóreskum málefnum hjá Institute for Security and Development Policy, sagði í samtali við Expressen að það sé engin tilviljun hvað er sýnt á upptökunni: „Ekkert gerist í Norður-Kóreu án þess að ríkisvaldið sé með fingurna í því.“
Hann sagði að þetta hafi byrjað fyrir nokkrum árum. Þá hafi dóttir háttsetts herforingja sýnt „jákvæðar“ hliðar Pyongyang og það hafi tekist vel. Þar á hann við notkun einræðisstjórnarinnar á samfélagsmiðlum.
Hvað varðar „IKEA-verslunina“ þá er þar um ólöglegt athæfi Norður-Kóreumanna að ræða. Í tilkynningu segir IKEA að fyrirtækið sé ekki með neina dreifingar- eða söluaðila í Norður-Kóreu. Það væri líka skrýtið ef svo væri því harðar refsiaðgerðir eru í gildi varðandi landið og það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir IKEA að brjóta gegn þeim.
NK News, sem fylgist náið með því sem gerist í einræðisríkinu, segir að IKEA-vörurnar komi líklega frá Kína enda hafa Kínverjar lengi séð um að útvega norðurkóresku elítunni lúxusvörur. Þá vaknar einmitt spurningin um af hverju IKEA-vörur, því þær teljast nú seint vera lúxusvarningur. Af hverju eyða Norður-Kóreumenn orku og takmörkuðum miðlum sínum í sænska hönnun fyrir almenning?
Líklega er það vegna þess að IKEA virðist vera í uppáhaldi hjá Kim-fjölskyldunni. IKEA-vörum var stillt upp í annarri norðurkóreskri verslunarmiðstöð, Kwangok, 2018. Var það líklega gert til að minnast Kim Jong-il- föður Kim Jong-un, sem er núverandi einræðisherra, því þegar Jong-il vígði verslunarmiðstöðina 2011 sagði hann að sögn NK News að „þar gæti verið gott að seja hin þekktu IKEA-húsgögn“. Hann hvatti síðan embættismenn sína til að koma „IKEA-húsgagnaframleiðslu á laggirnar“ sem fyrst.
Kim Il Sung, faðir Jong-Il og stofnandi Norður-Kóreu, var einnig hrifinn af sænskum vörum. Á áttunda áratugnum tókst honum að fá athygli Svía sem töldu hægt að eiga í viðskiptum við hann. Einræðisstjórnin pantaði þá 1.000 Volvo 144 GL. Allir voru bílarnir grænir og með leðursætum. Bílarnir voru afhentir 1974 en hins vegar hefur engin greiðsla borist fyrir þá enn þann dag í dag.
Svíar rukka Norður-Kóreumenn tvisvar á ári fyrir bílana og er upphæðin, sem er í vanskilum, nú orðin sem svarar til um 40 milljarða íslenskra króna.