Felix Seifert, viðskiptaritstjóri þýska miðilsins Welt, ritaði grein sem birtist fyrir viku og ber yfirskriftina: „Auswandern? Was das Top-Verdienerland Island so attraktiv macht.“ Á íslensku kynni það að hljóða svo: „Hefurðu í hyggju að flytja úr landi? Hvers vegna hálaunaríkið Ísland er svo aðlaðandi“. Hann getur þess í greininni að náttúrufar sé eintakt hér, Íslendingar búi við friðsæld, landið sé vel staðsett milli tveggja heimsálfa og vinnumarkaðurinn laði að sér fólk. Þá sé efnahagskerfið í vexti, ólíkt Þýskalandi, og meðallaun með því allra hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Seifert vísar til úttektar Tölfræðistofnunar Evrópu (Eurostat) á hreinum tekjum einhleypra og barnlausra á árinu 2023. Í Sviss hafi þær numið 85.000 evrum, en Ísland fylgt þar á eftir með 53.800 evrur. Lúxemborgarar séu í þriðja sæti með 49.000 evrur en í Þýskalandi hafi sami hópur aðeins borið úr býtum 38.086 evrur að meðaltali árið 2023.
Í greininni er sömuleiðis vísað til nýlegrar skýrslu ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young sem sýnir að sífellt fleiri ungir Þjóðverjar hyggjast flytjast af landi brott. Þar ræður mestu að vel menntuðu og hæfileikaríku fólki bjóðast mun betri kjör utan landssteinanna og að auki er hátekjuskattur afar hár í Þýskalandi, til að mynda mun hærri en á Íslandi, sem geri Ísland að fýsilegum kosti fyrir vel menntaða Þjóðverja að mati Seiferts. Hér sé að finna allnokkur stöndug alþjóðleg fyrirtæki sem þurfi á vel menntuðu starfsfólki að halda og gróska í nýsköpun. Bent er á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætli að hagvöxtur verði stöðugur á Íslandi út þennan áratug, að meðaltali 2,4% á ári.
Líklega gengur Seifert of langt í lofi sínu um lífskjör á Íslandi og þá kann afleitt útlit í efnahagsmálum Þýskalands að gylla fyrir þarlendum mönnum hag annarra þjóða. En það er rétt hjá honum að framtíðarhorfur eru hreint ágætar hér ef vel verður haldið á málum og gnægð tækifæra fyrir dugmikið fólk, þó vitaskuld mætti ótalmargt bæta í regluverki, skattamálum og öðru umhverfi atvinnulífs, auk þess sem ráðast þarf í gagngerar endurbætur menntakerfinu, en í nýjustu könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar á kunnáttu skólanemenda kemur í ljós að mun færri sýna afburðaárangur hér en í öðrum þróuðum ríkjum.
Í greininni kemur fram að hér búi aðeins 1.900 Þjóðverjar. Ég þekki allnokkra þeirra sjálfur, það er margt yfirburðarfólk sem tekist hefur vel að aðlagast íslensku samfélagi og auðgað það svo um munar. En vangaveltur Seiferts um Ísland sem draumaríki leiða líka hugann að því hvernig innflytjendamálum er háttað hér á landi. Hér hefur til að mynda ekki verið komið á skýrri innflytjendastefnu sem hefði að markmiði að laða til fólksins afburðarmenn til hugar og handa. Þess í stað hafa innflytjendamál verið látin reka á reiðanum, aðlögun svo illa sinnt að stjórnvöld eru farin að amast við notkun orðsins aðlögun og jafnvel verið að „flytja inn fátækt í stórum stíl“ líkt og það var orðað í fréttum fyrir áramótin. Á sama tíma sjáum við af fjölda hæfileikaríkra landa okkar sem flytjast til nálægra ríkja og margir koma aldrei aftur, en frændur okkar handan hafsins setjast mun sjaldnar hér að.
Við lestur greinarinnar í Welt varð mér hugsað til bókar Árna Heimis Ingólfssonar tónlistarfræðings sem kom út fyrir áramótin þar sem hann sagði sögu þriggja yfirburðarmanna á tónlistarsviðinu sem flúðu nasismann, Victors Urbancic sem kom frá Austurríki og Þjóðverjana Heinz Edelstein og Róberts Abrahams Ottóssonar. Heil kynslóð íslenskra hljómlistarmanna nam við fótskör þeirra og þeir voru lykilmenn við uppbyggingu menningarstofnana hins unga lýðveldis. Óhætt er að segja að þeir þremenningar hafi átt meiri þátt í að opna eyru Íslendinga fyrir miðevrópskri tónmenningu en nokkur annar — og færa okkur þannig raunverulega hlutdeild í hinni fornu evrópsku hámenningu. Saga þeirra þriggja endurspeglar vel hversu miklu munar um sérhvern afburðarmann í jafnfámennu þjóðfélagi og okkar.
Við þekkjum úr Íslandssögunni hvernig agentar fóru um og kynntu landkosti vestanhafs fyrir Íslendingum á ofanverðri nítjándu öld. Í Ameríku vissu menn sem var að hér bjó harðgert fólk sem gæti með dugnaði reist sér bú í ónumdum lendum Vesturheims. Það varð líka úr að þangað fluttust búferlum þúsundir Íslendinga sem áttu sinn þátt í að byggja upp þjóðfélög Norður-Ameríku. Nú er ef til vill kominn tími til að við kynnum fyrir dugmiklu og vel menntuðu fólki nálægra og skyldra ríkja tækifæri þau sem hér bjóðast og löðum til landsins hæfileikafólk frá grannþjóðum okkar, þar með talið Þýskalandi. En fyrir það fyrsta verða landsmenn sjálfir að hafa trú á framtíðinni og skilning á mikilvægi þess að fóstra afburðarmenn.