Deildin í Sádi Arabíu mun hjálpa Cristiano Ronaldo að skora þúsund mörk á knattspyrnuferlinum að sögn Tomasz Kuszczack, fyrrum liðsfélaga Portúgalans.
Pólverjinn var með Ronaldo hjá Manchester United á sínum tíma en hann hefur nú lagt skóna á hilluna.
Ronaldo þyrfti að spila í allt að tvö eða þrjú ár til viðbótar til að ná þúsund mörkum en hann er kominn yfir 900 marka múrinn.
,,Það er allt hægt, hann þarf samt að skora mörg mörk. Það er gott að vera með markmið,“ sagði Kuszczak.
,,Ég þekki hann og ef hann nær einu markmiði þá mun hann setja annað. Við getum séð það að hann er einn besti leikmaður sögunnar.“
,,Þetta er mögulegt, af hverju ekki? Hann virkar í standi. Hann er 39 ára gamall og deildin sem hann spilar í gerir þetta að möguleika.“