fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Eyjan

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 17. janúar 2025 19:42

Andri Snær Magnason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Snær Magnason, rithöfundur og baráttumaður fyrir íslenskri náttúru, kemur fyrirtækinu Carbfix til varnar og segist fullviss um að vísindafólk þar innandyra starfi að heilindum. Í færslu á Facebook-hópnum Loftslagsbreytingar – umræða og fréttir segist Andri Snær ekki sannfærður um að það sé vænleg leið að „glæpavæða frumkvöðlastarf, vísindi og stórhug“.

Carbfix, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sérhæfir sig í að farga kolefnum með því að dæla þeim ofan í jörðina. Coda Termina, fyrirhugað verkefni fyrirtækisinsí Hafnarfirði, þar sem ráðgert er að taka við koldíoxíði frá erlendum aðilum og dæla þeim í jörðu, hefur verið afar umdeilt og mætt mikilli andstöðu hjá íbúum.

Þá greindi Heimildin frá því á dögunum að blaðamenn miðilsins hefðu undir höndum viðskiptaáætlanir fyrirtækisins þar sem miðað var við að dæla niður mun meira efni en kynnt hafði verið fyrir íbúum og var ýjað að blekkingaleik. Forsvarsmenn Carbfix hafa sagt að um úreltar áætlanir væri að ræða og vísað ásökununum á bug.

Fyrirtækið hefur því svo sannarlega verið milli tannanna á fólki og því má segja að stuðningur Andra Snæs hafi komið úr óvæntri átt.

Segir hann að augljóslega kvikni ýmsar spurningar um lausnina sem Carbfix hyggur á að nota í Hafnarfirði en að hugmynd Carbfix sé bæði merkileg og lofandi og tilraunir með bindingu með saltvatni og sjí gegir vonir um að hægt sé að nýta lausnina um allan heim.

Andri Snær segir ennfremur að hann hafi svo sannarlega barist gegn „trylltri stóriðjustefnunni hérlendis“.

„En þar fannst mér mun meira í húfi en í þessu tilfelli, mjög áþreifanleg náttúra í húfi og mjög raunveruleg mengun uppi á borðinu. Mér finnst umræðan komin út fyrir gagnrýni og komin í eyðileggingarstarf og niðurrif og næstum ómögulegt að blanda sér inn í umræðuna af því hún verður strax persónuleg og ómálefnanleg,“ skrifar rithöfundurinn og bætir ennfremur við.

„Ég tel að þeir sem hafa unnið að Carbfix hafi unnið að heilindum og kannski hafa þau gert einhver mistök í kynningu, kannski fannst þeim málefnið og málstaðurinn það góður að þeim datt ekki í hug að reikna með svo hörðum viðbrögðum,“ skrifar Andri Snær.

Innlegg hans sk

 

Hér má lesa pistil Andra Snæs í heild sinni

Ég hef fylgst með Carbfix nánast frá upphafi og hef haft mætur á því vísindafólki sem þróaði lausnina. Ég var skeptískur þegar niðurdælingin hófst á Hellisheiði og gat spurt ,,heimskulegu“ spurninganna. Gæti þetta mengað Gvendarbrunna? Gæti þetta lekið út aftur? Gætu myndast sýruholur í jörðinni? Verður landið ,,stökkt“ gæti það hreinlega brotnað? Carbfix lagaði vandann við brennisteinsmengun á Hellisheiði og bætti þannig beint loftgæði á höfuðborgarsvæðinu og það fellur minna á silfrið.

Þetta er glænýr veruleiki sem þau eru að fást við og full ástæða til að ræða málin frá öllum hliðum. Ég kann að meta gagnrýna fréttamennsku en mér finnst allt of langt gengið í að hneykslis og glæpavæða þessi áform í Straumsvík. Baráttan við loftslagsbreytingar er ekki einfalt eða línulegt verkefni og það þarf að gera margskonar tilraunir og allskyns mistök og ræða frá mörgum hliðum. Heimurinn er á algeru frumstigi og lausn Carbfix um bindingu í basalti er merkileg og lofandi, tilraunir með bindingu með saltvatni eða sjó gefa vonir um að hægt væri að nýta þessa aðferð mjög víða í heiminum.

Og þótt það væri ekki nema 1% af lausninni þá er það geggjað ef einhver finnur 99 aðrar lausnir. Er vitleysa að grípa CO2 og flytja milli landa? Það má ræða það. Mesta vitleysan er að flytja ennþá olíu og gas milli landa með sambærilegum skipum. Er það niðurlægjandi að taka við ,,útlenskri“ mengun? CO2 er ekki mengun frekar en vatn – mengunin er bara of mikið magn í andrúmsloftinu. En hvað með hugsanleg snefilefni sem gætu slæðst með? Það þarf að ræða það ef þau eru fyrir hendi. Ef það er brennisteinn þá er það í lagi. Hann verður glópagull. Hvað með höfnina? Það má ræða það. Hvað með áhættu OR? Það má ræða það. Hvað með vatnsnotkun? Vatnið sem kemur út í Straumsvík er ekki neysluvatn (og það er á þynningarsvæði álvers til 50 ára) og ef til þess kemur, er hægt að hætta förguninni af því vatnið fer ekkert. Hvað með jarðskjálfta? Það má ræða það.

Og jú ég kannast við að vera mótfallinn trylltri stóriðjustefnu, en þar fannst mér mun meira í húfi en í þessu tilfelli, mjög áþreifanleg náttúra í húfi og mjög raunveruleg mengun uppi á borðinu. Mér finnst umræðan komin út fyrir gagnrýni og komin í eyðileggingarstarf og niðurrif og næstum ómögulegt að blanda sér inn í umræðuna af því hún verður strax persónuleg og ómálefnanleg. Ég tel að þeir sem hafa unnið að Carbfix hafi unnið að heilindum og kannski hafa þau gert einhver mistök í kynningu, kannski fannst þeim málefnið og málstaðurinn það góður að þeim datt ekki í hug að reikna með svo hörðum viðbrögðum.

Persónulega fannst mér Coda terminal, sem innviðir, sambærilegt við borholur hitaveitunnar undir Reykjavík og hönnun á þeim tækifæri til að búa til samhengi á annars óreiðukenndu svæði í Vallarhverfi. Það er ástæða til að ræða þetta. Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun. En fyrst og fremst, vísindamenn sem eru jafnframt eldhugar með stórhug – mér finnst að það eigi ekki að berja þá niður – og ef þau klúðruðu PR málum er það kannski frekar til marks um heiðarleika og klaufaskap en segir ekkert um fagmennsku vísindanna. PR er ekki það sama og heiðarleiki. Trump er að taka við, drill baby drill þannig að kannski er engin von hvort eð er.

Jú jú ég man hrunið og klappliðið. Við eigum kannski ekki að hugsa stórt. Að glæpavæða frumkvöðlastarf, vísindi og stórhug – ég er ekki sannfærður um að það sé leiðin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson