Á fundi borgarráðs í gær voru lögð fram gögn um ferðakostnað Reykjavíkurborgar, innanlands og utan, á fyrsta eina og hálfa ári kjörtímabilsins, frá júní 2022 og til ársloka 2023. Kostnaðartölur í gögnunum eru eilítið misjafnar en ljóst er að heildarkostnaður borgarinnar á tímabilinu vegna ferða kjörinna fulltrúa, embættismanna og annarra starfsmanna er að minnsta kosti um 50 milljónir króna en hver ferðakostnaður borgarinnar var í heild sinni á þessu tímabili kemur ekki fram í gögnunum. Fram kemur einnig að ferðir embættismanna og annarra starfsmanna kostuðu borgina þó nokkuð meira en ferðir kjörinna fulltrúa.
Umrædd gögn eru í fyrsta lagi svar fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði um kostnað borgarinnar við utanferðir kjörinna fulltrúa á yfirstandandi kjörtímabili. Í svarinu kemur hins vegar fram kostnaður borgarinnar við ferðir bæði innanlands og utan hjá kjörnum fulltrúum og kostnað við þá embættismenn og starfsmenn sem fóru með í þær ferðir.
Á hinn bóginn er um að ræða yfirlit yfir ferðakostnað miðlægrar stjórnsýslu, fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og
starfsumhverfissviðs frá júní 2022 til desember 2023.
Í fyrrnefnda gagninu eru tilteknar ferðir sem ekki eru nefndar í því síðarnefnda en margar ferðir eru nefndar í báðum gögnum. Fer það eftir því hvaða skrifstofa eða svið borgarinnar greiddi fyrir viðkomandi ferð. Þar af leiðandi er örðugt að átta sig á því hver heildarferðakostnaður borgarinnar var á tímabilinu.
Gögnin eru sundurliðuð eftir hverjum og einum borgarfulltrúa og einnig er kostnaðurinn sundurliðaður eftir því hvort um er að ræða kjörna fulltrúa, embættismenn eða aðra starfsmenn. Kostnaðurinn við hverja og eina ferð er síðan sundurliðaður í svarinu.
Mestur var kostnaðurinn við ferðir oddvita Samfylkingarinnar, sem gegndi embætti borgarstjóra á þessu tímabili, Dags. B. Eggertssonar.
Á þessu eina og hálfa ári fór Dagur í 17 ferðir erlendis og sex ferðir innanlands vegna starfa sinna. Fór Dagur einkum á fundi og ráðstefnur erlendis en aðallega á vinnufundi innanlands. Heildarkostnaður borgarinnar vegna ferða hans var á þessu tímabili alls 4.687.832 krónur. Mestur kostnaður var við opinbera heimsókn sem Dagur fór í ásamt nokkrum borgarfulltrúum og starfsmönnum borgarinnar til Portland og Seattle í Bandaríkjunum. Er heimsóknin í svarinu skilgreind sem skoðunar og kynnisferð en með í för var sendinefnd frá Íslandsstofu. Ferðin var farin í ágúst 2023 og stóð yfir í fimm daga. Kostnaður borgarinnar við för Dags í þessa ferð var 686.972 krónur en fram kemur í svarinu að inn í þessari upphæð sé fargjald eiginkonu hans sem hafi verið greitt samkvæmt reglum um opinberar heimsóknir.
Aðrir kjörnir fulltrúar sem tilgreindir eru í gögnunum fóru á þessu tímabili fóru flestir í 1-6 ferðir. Þeir kjörnu fulltrúar sem borgin hafði mestan kostnað af á þessu tímabili vegna ferða, næst á eftir Degi, voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Þórdís Lóa fór í fimm ferðir erlendis á til dæmis fundi og eina ferð innanlands, á Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri. Ferðir Þórdísar kostuðu borgina á þessu eina og hálfa ári 1.392.262 krónur.
Heiða Björg fór á tímabilinu í 4 ferðir erlendis og eina ferð innanlands en þessar ferðir hennar kostuðu borgina 1.021.999 krónur.
Þessir þrír fulltrúar tilheyra flokkum sem mynda meirihluta í borgarstjórn. Sá borgarfulltrúi minnihlutans sem kostaði borgina mest á þessu eina og hálfa ári vegna ferða er Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún fór í 2 ferðir erlendis en önnur þeirra var áðurnefnd ferð til Portland og Seattle en vegna þessara ferða Ragnhildar greiddi borgin 611.459 krónur.
Sá kjörni fulltrúi sem kostaði borgina minnst, vegna ferða á þessu tímabili, var Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Helgi Áss fór í eina ferð innanlands, á Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri, og kostaði ferðin borgina 72.500 krónur.
Sú ferð sem kostaði borgina mest á þessu eina og hálfa ári, samkvæmt svarinu við fyrirspurn Sjálfstæðismanna, var títtnefnd ferð til Portland og Seattle. Samkvæmt svarinu fóru alls 10 kjörnir fulltrúar, bæði úr minni- og meirihluta, í ferðina. Kostnaðurinn fyrir borgina vegna þeirra var 4.216.264 krónur. Kostnaðurinn við för embættismanna í ferðina var 848.363 krónur en vegna annarra starfsmanna greiddi borgin 803.852 krónur. Alls kostaði þess ferð Reykjavíkurborg 5.868.479 krónur.
Samkvæmt yfirlitinu yfir ferðakostnað miðlægrar stjórnsýslu, fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og
starfsumhverfissviðs var hann á þessu eina og hálfa ári 49.766.044 króna. Þar af kostuðu ferðir borgarfulltrúa 13.608.832 krónur, ferðir embættismanna 8.415.355 krónur, ferðir annarra starfsmanna 27.690.107 krónur og loks ferðir verktaka 51.751 krónur.
Í svarinu við fyrirspurn Sjálfstæðismanna, sem eins og áður segir sneri fyrst og fremst að ferðum borgarfulltrúa, er heildarkostnaður við ferðir borgarfulltrúa örlítið hærri en í yfirlitinu en samkvæmt svarinu var kostnaðurinn 14.488.282 króna.
Heildarkostnaður borgarinnar við ferðir innanlands og utan á þessu eina og hálfa ári var því að minnsta kosti 50.645.494 krónur. Ítreka ber að í yfirlitinu er ekki tiltekinn kostnaður við ferðir á vegum allra sviða og skrifstofa borgarinnar og í svarinu við fyrirspurn Sjálfstæðismanna eru aðeins tilteknar ferðir borgarfulltrúa og kostnaðurinn við ferðir starfsmanna borgarinnar sem fóru einnig í þær tilteknu ferðir. Hvort að ferðir hafi verið farnar á vegum sviða borgarinnar sem ekki eru tiltekin í yfirlitinu þar sem eingöngu embættismenn eða aðrir starfsmenn voru í viðkomandi ferð er ekki tekið fram. Einnig er erfitt að ráða af gögnunum hver heildarkostnaðurinn var af för starfsmanna borgarinnar í ferðir sem tilteknar eru í svarinu við fyrirspurn Sjálfstæðismanna en ekki í yfirlitinu.
Það er því óljóst á þessari stundu hver ferðakostnaður Reykjavíkurborgar var í heild sinni á því tímabili sem um ræðir, frá júní 2022 og fram til desember 2023.