Vinsæli samfélagsmiðillinn TikTok verður bannaður í Bandaríkjunum á sunnudaginn að óbreyttu. Fráfarandi bandaríkjaforseti Joe Biden reyndi að þvinga samfélagsmiðlarisann til að selja allar eignir sínar og starfsemi í Bandaríkjunum með löggjöf. Biden sagði þetta gert til að verja hagsmuni Bandaríkjanna en móðurfyrirtæki TikTok er kínverska fyrirtækið ByteDance. Um 170 milljónir Bandaríkjamanna nota miðilinn sem aflar eins þúsundum notenda tekna sem og veltir milljörðum í auglýsingasölu. Ýmsir þekktir fjárfestar hafa lýst yfir áhuga á að kaupa starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum en til þessa hefur TikTok ekki haft áhuga á að selja. Einhverjar sögusagnir hafa verið um óformlegar viðræður auðkýfinga og forsvarsmanna TikTok en þær viðræður eru ólíklegar til árangurs þar sem yfirvöld í Kína þyrftu alltaf að samþykkja söluna og flestum þykir hæpið að kínversk yfirvöld samþykki bandaríska eigendur.
Nú hefur YouTube-stjarnan James Donaldsson, betur þekktur sem Mr. Beast, lýst yfir áhuga á að kaupa bandaríska starfsemi miðilsins. Hann segist vera í samskiptum við fjársterka aðila og með þeirra aðstoð sett saman kauptilboð.
„Við viljum kaupa miðilinn. Bandaríkin eiga TikTok skilið. Gefið mér sæti við borðið, leyfið mér að bjarga miðlinum,“ sagði Mr. Beast í myndbandi sem hann hefur birt. Um er að ræða einn vinsælasta áhrifavald í heimi en hann er með rúmlega 800 milljónir fylgjenda á YouTube.
Bandarísk yfirvöld óttast um öryggi persónuupplýsinga bandarískra notenda og að kínversk yfirvöld noti miðilinn í áróðursskyni. TikTok-notendur hafa mótmælt yfirvofandi banni og meðal annars birt myndbönd af sér að senda forseta Kína viljandi allar sínar persónuupplýsingar.
TikTok hefur reynt að fá banninu hnekkt með vísan í bandarísku stjórnarskrána. Samkvæmt fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar er stjórnvöldum meðal annars meinað að skerða tjáningarrétt Bandaríkjamanna með löggjöf.
Aðrir auðkýfingar sem hafa lýst yfir áhuga á TikTok eru Elon Musk, athafnamennirnir Frank McCourt og Kevin O’Leary, Bobby Kotick fyrrum forstjóri Activision, Doug McMillon forstjóri Walmart, og stórfyrirtækið Microsoft.
Ef svo ólíklega fer að bandarískur armur TikTok verði seldur þá verður vinsæla algrím miðilsins líklega undanskilið, en algrímið er talið bera mesta ábyrgð á vinsældum miðilsins.