Þrettán ára stúlka þurfti að hlaupa undan manni sem reyndi að nálgast hana við Grasagarðinn í Laugardal í gærkvöldi. Stúlkan og móðir hennar voru skelkaðar eftir atvikið og lögregla leitar mannsins.
„Dóttir mín var vitaskuld mjög hrædd en það verður í lagi með hana,“ segir móðirin í samtali við DV. Hún greindi frá atvikinu á samfélagsmiðlum í gær.
Þrettán ára dóttir hennar var á leið heim af æfingu í Laugardalnum í gær um klukkan 18:00 þegar karlmaður reyndi að nálgast hana. Hún var að ganga í átt að Áskirkju við Grasagarðinn þegar hún heyrði mann segja „Komdu“ innan úr trjánum.
Varð stúlkan mjög hrædd, öskraði á hann og tók á rás í átt að Laugarásvegi. Maðurinn hljóp þá á eftir henni.
Sem betur fer var hlaupahópur á ferð og stoppaði fólkið til að hjálpa stúlkunni. En þá var maðurinn horfinn. Leitaði fólkið að manninum en fann hann ekki þar sem hann hafði falið sig einhvers staðar. Hélt stúlkan þá áfram að hlaupa, alla leið heim til sín.
Móðirin segist hafa hringt í lögregluna þegar dóttir hennar kom heim og lögreglan sé byrjuð að vinna í málinu.
„Við töluðum við lögreglumenn heima hjá okkur í gær. Þeir sýndu okkur stuðning og voru vingjarnlegir,“ segir móðirin. „Hvöttu þeir dóttur mína til að vera ekki bangin við að hringja í lögregluna ef henni vantar hjálp. Henni líður betur með að vita það.“
Gaf hún lýsingu á manninum. Hann var mjög hávaxinn og gildur með djúpa rödd. Hann var í svartri eða dökkri úlpu eða hettupeysu með hettuna yfir höfðinu. Sagðist dóttir hennar ekki geta lýst honum betur en það enda var myrkur þegar hann reyndi að nálgast hana.
Móðirin segist ekki hafa heyrt meira af málinu eða rannsókn lögreglunnar síðan í gær.
„Þeir eru með lýsingu af manninum og ætluðu að leita að honum í dalnum,“ segir hún. Hvetur hún einnig foreldra og fjölskyldur til þess að vera á varðbergi til að tryggja öryggi barna sinna.