fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Fréttir

Glerhálka og skortur á hálkuvörnum orsakaði dauða hjóna á Grindavíkurvegi

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 17. janúar 2025 11:41

Mynd úir safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá lokaskýrslu vegna banaslyss sem varð á Grindavíkurvegi í janúar 2024. Þá rákust saman jeppabifreið og vörubifreið þegar sú síðarnefnda fór yfir á rangan vegarhelming. Hjón á sjötugsaldri sem voru um borð í jeppabifreiðinni létust bæði. Samkvæmt skýrslunni er meginorsök slyssins sú að ökumaður vörubifreiðarinnar missti stjórn á henni í glerhálku en skortur á hálkuvörnum átti einnig sinn þátt í henni.

Slysið varð með þeim hætti að jeppabifreiðinni, Toyota Hilux, var ekið suður Grindavíkurveg. Á sama tíma var Mercedes Arocs vörubifreið ekið úr gagnstæðri átt norður Grindavíkurveg. Um 550 metra sunnan gatnamóta Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar missti ökumaður vörubifreiðarinnar stjórn á henni í mjúkri vinstri beygju og rann hún yfir á gagnstæðan vegarhelming og út fyrir veginn. Ökumaður jeppabifreiðarinnar beygði til hægri og rákust bifreiðarnar saman utan akbrautarinnar. Ökumaður og farþegi jeppabifreiðarinnar létust á slysstað. Mikil hálka var á veginum þennan dag.

Á þessum tíma var umferð um Grindavíkurveg takmörkuð með vaktaðri lokun.

Tilkynnt var um slysið klukkan 11:35.

Í atvikalýsingu skýrslunnar kemur fram að vörubifreiðin rann í vesturátt yfir miðlínu vegarins, yfir á gagnstæðan vegarhelming og út fyrir akbrautina. Jeppabifreiðinni var beygt í vesturátt út fyrir veginn og rákust bifreiðarnar saman fjórum metrum vestan akbrautarinnar.

Allur framhluti, toppur og vinstri hlið Toyota jeppabifreiðarinnar lenti harkalega á framenda og hægra framhorni vörubifreiðarinnar. Eftir áreksturinn stöðvaðist vörubifreiðin 26 metra í norðurátt frá árekstrarstað og Toyota bifreiðin stöðvaðist 25 metra í sömu átt frá árekstrarstað.

Fram kemur að hjónin sem létust voru bæði í öryggisbeltum.

Á nagladekkjum

Bifreiðunum er lýst mjög ítarlega í skýrslunni. Jeppabifreiðin var á nagladekkjum. Leyfð heildarþyngd hennar var 3,1 tonn, breidd 1,85 metrar og lengd 5,33 metrar.

Leyfð heildarþyngd vörubifreiðarinnar var 35 tonn en eigin þyngd (án farms) var 13,6 tonn. Breidd vörubifreiðarinnar var 2,55 metrar og lengd 9 metrar. Bifreiðinin var útbúin vetrarhjólbörðum og á henni var áföst tromla fyrir flutning á fljótandi steinsteypu.

Tölva jeppabifreiðarinnar sýndi að við áreksturinn var hún á 63 kílómetrahraða á klukkustund en samkvæmt ökurita vörubifreiðarinnar var hún á 90 kílómetra hraða á klukkustund.

Grindavíkurvegur er eins og flestir líklega vita með eina akrein í hvora átt.

Vitnisburður

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt vitnisburði ökumanns vörubifreiðarinnar hafi hann verið á leið úr Grindavík eftir að hafa losað steinsteypu úr bifreiðinni og verið á leið að Reykjanesbraut. Þegar hann hann verið í vinstri beygju skömmu fyrir komu að hringtorgi við Reykjanesbraut hafi hann ætlað að hægja á ferðinni en þá hafi hann misst stjórn á bifreiðinni, farið yfir á gagnstæða akrein og út fyrir veg.

Í skýrslunni kemur fram að skráð viðbrögð ökumanns jeppabifreiðarinnar gagnvart stjórntækjum hennar hafi verið í samræmi við
hálkuna á slysstað þar með talið hemlun hennar en ökumaðurinn hafi reynt á mismunandi hátt að hafa stjórn á bifreiðinni fyrir slysið.

Eftir ökumanni vörubifreiðarinnar er haft í skýrslunni að hann hafi verið að nota mótorbremsu þegar hann var í vinstri beygju og verið að
nálgast hringtorgið við Reykjanesbraut. Mótorbremsan hafi verið tengd drifrás bifreiðarinnar. Í skýrslunni segir að í þessu tilfelli sé sennilegt að mótorbremsan hafi læst afturhjólum vörubifreiðarinnar og ökumaður þá misst stjórn á henni, en glerhálka hafi verið á veginum.

Hálkuvarnir

Um hálkuvarnir á slysstaðnum segir í skýrslunni meðal annars að klukkan 04:56 þennan dag hafi hálkuvörn hafist á Grindavíkurvegi. Henni hafi lokið klukkan 07:04 en hálka hafði greinst á veginum í eftirlitsferð sem hófst klukkan 03:15 um nóttina. Í ferilvöktunarbúnaði hjá Vegagerðinni kom fram að ekki var saltað frá Reykjanesbraut að lokunarpósti í byrjun aðgerðar og ekki var saltað frá Seltjörn
að Reykjanesbraut í lok aðgerðar. Síðan segir í skýrslunni:

„Þar af leiðandi var aðeins farin ein umferð hálkuvarnar á vestari akrein Grindavíkurvegar í suður frá Reykjanesbraut að Seltjörn um fimmleytið um morguninn en eystri akrein Grindavíkurvegar, til norðurs að Reykjanesbraut, við slysstað var ekki hálkuvarin fyrir
slysið þennan dag.“

Eftirlitsbifreið greindi hálku á veginum klukkan 09:27. Saltbifreið var kölluð út klukkan 10:08 en var ekki tilbúin í útkallið fyrr en 11:55, vegna viðgerðar, en tilkynnt var um slysið klukkan 11:35.

Lögreglubifreið var ekið framhjá slysstaðnum um hálftíma fyrir slysið og varð ökumaðurinn ekki var við hálku.

Ökumaður vörubifreiðarinnar fullyrti að einum og hálfum tíma fyrir slysið hafi hann ekið suður Grindavíkurveg og ekki orðið var við hálku á veginum. Í skýrslunni segir að veghiti þegar slysið varð hafi verið undir frostmarki og þá hafi glerhálka geta myndast t.d. vegna slydduéls en í skýrslunni er margítrekað að bleyta hafi verið á veginum þegar slysið varð. Greina hafi mátt snjóþekju við slysstað á mynd úr eftirlitsbifreið Vegagerðarinnar.

Niðurstaða

Niðurstöður skýrslunnar eru því þær að meginorsök slyssins sé sú að ökumaður vörubifreiðarinnar hafi misst stjórn á bifreiðinni í glerhálku á veginum, farið yfir á gagnstæðan vegarhelming, og út fyrir veg þar sem áreksturinn varð.

Aðrar orsakir voru þær að hálkuvörn vantaði á eystri akrein við slysstað, en það er akreinin sem vörubifreiðin var á.

Þar að auki hafi ökumaður vörubifreiðarinnar ekið nokkurn veginn á hámarkshraða en sá hraði eigi við um góðar aðstæður sem hafi ekki verið til staðar þegar slysið varð. Því hafi hann ekið of hratt miðað við aðstæður.

Að lokum bendir Rannsóknarnefnd samgönguslysa á eftirfarandi um hálku:

„Í tilvikum bleytu getur myndast mikil hálka á vegyfirborði þegar veghiti er undir frostmarki. Ísing sem þessi getur líkst blautum vegi, en myndar spegilsléttan og nærri ósýnilegan þekju á yfirborðinu og því getur verið erfitt fyrir ökumenn að átta sig á aðstæðum. Slíkur ís á vegum er oft kallaður glerhálka eða glæra.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur
Fréttir
Í gær

Mogginn hnýtir í Höllu forseta – „Kurteisi kostar ekkert“

Mogginn hnýtir í Höllu forseta – „Kurteisi kostar ekkert“
Fréttir
Í gær

Ríki vara við – Segja að Norður-Kórea öðlist mikilvæga reynslu í stríðinu við Úkraínu

Ríki vara við – Segja að Norður-Kórea öðlist mikilvæga reynslu í stríðinu við Úkraínu
Fréttir
Í gær

Stjórnarformaður Play bendir á sláandi mun – Ríkið kaupir miklu fleiri flugmiða af Icelandair

Stjórnarformaður Play bendir á sláandi mun – Ríkið kaupir miklu fleiri flugmiða af Icelandair