Neymar segir að hegðun Kylian Mbappe hafi breyst þegar Lionel Messi mætti til Paris Saint-Germain sumarið 2021.
Neymar, sem spilar í dag með Al-Hilal, var þá á mála hjá PSG en enginn þessara þriggja er hjá félaginu í dag. Messi kom til PSG í kjölfar þess að hann yfirgaf Barcelona vegna fjárhagsvandræða.
„Ég kallaði hann oft gullstrákinn. Ég sagði honum að hann væri einn sá besti í heimi, var alltaf til í að hjálpa honum og tala við hann,“ sagði Neymar um Mbappe, en þeir komu saman til PSG 2017 og voru stærstu stjörnur liðsins.
„Þegar Messi kom varð hann smá öfundsjúkur. Hann vildi ekki deila mér með neinum. Þá byrjuðu rifrildin og hegðunin breyttist. Við rifumst stundum okkar á milli,“ sagði Neymar enn fremur.
Mbappe gekk í raðir Real Madrid í sumar á frjálsri sölu eftir mikið stríð við PSG. Messi spilar í dag með Inter Miami í Bandaríkjunum.