Í frétt BBC kemur fram að konan sé „áhrifavaldur“ en hún hefur þó ekki verið nafngreind í áströlskum fjölmiðlum.
Konan lýsti því í færslum á samfélagsmiðlum að dóttir hennar glímdi við alvarleg veikindi og hún ætlaði að leyfa fólki að fylgjast með baráttu þeirra mæðgna.
Það var svo í október að læknar á sjúkrahúsi í Queensland tilkynntu móðurina til lögreglu vegna gruns um að eitrað hefði verið fyrir stúlkunni.
Hafði stúlkan komið á sjúkrahúsið vegna alvarlegra veikinda og leiddu rannsóknir í ljós að hún var með lyfseðilsskyld lyf í blóðinu.
Lögregla hefur nú lokið rannsókn málsins og hefur konan, sem er 34 ára, verið ákærð og gæti hún átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér.
Að sögn lögreglu er dóttir konunnar við góða heilsu í dag og virðist hún ekki hafa borið alvarlegan skaða af gjörðum móður sinnar.
Konan er sögð hafa safnað rúmum fimm milljónum króna í gegnum vefsíðuna GoFundMe vegna „veikinda“ dóttur sinnar.