Kristján ræðir þetta við Morgunblaðið í dag þar sem fjallað er um málið.
„Það er óþolandi að vakna við þetta, nánast alla daga vikunnar eins og verið hefur að undanförnu,“ segir Kristján í viðtalinu. Hann kveðst hafa sent tölvupóst til Brynjólfs Þorkelssonar hjá Eignabyggð síðastliðinn sunnudag þar sem hann kvartaði undan því að verið væri að vinna á sunnudögum með stórvirkum vinnuvélum með tilheyrandi hávaða.
„Þessum tölvupósti hefur aldrei verið svarað, ónæðið heldur áfram og byrjaði nú síðast klukkan 7 í morgun,“ segir Kristján við Morgunblaðið.
Hann segir að svo virðist vera sem stórar vélar séu að skafa klöppina og hávaðinn sé óbærilegur.
Annar íbúi, sem vildi ekki láta nafns síns getið, segir að hávaðinn sé ólýsanlegur. Hann hafi rætt við vélamennina um hávaðann en viðbrögð Eignabyggðar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu, verið á þann veg að finna út hvar íbúinn vinnur og kvarta undan honum við forsvarsmenn fyrirtækisins.