fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 19. janúar 2025 11:30

Loðmundarfjörður lagðist í eyði fyrir hálfri öld síðan. Mynd/Múlaþing

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deila um friðlýsingu eyðijarðarinnar Stakkahlíðar í Loðmundarfirði er í algjörum hnút. Dúntekjumenn voru ósáttir við að ríkið hafi nýtt forkaupsrétt sinn að jörðinni og saka Ferðafélag Fljótsdalshéraðs um að þrýsta á um friðlýsingu. Hafa þeir safnað undirskriftalista og skilað inn til sveitarfélagsins sem á eftir að mynda sér skoðun um málið.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, segir að það séu erjur manna á milli um málið.

„Það eru persónulegar erjur manna á milli sem draga ferðafélagið meira inn í umræðuna,“ segir hún. „Það er ekki alveg gott að segja hvað sé fagleg umræða og hvað ekki.“

Ríkið virkjaði forkaupsrétt

Stakkahlíð er eyðijörð í Loðmundarfirði sem er eyðifjörður. Í firðinum bjuggu eitt sinn hundrað manns en síðasti íbúinn flutti burt árið 1973. Húsin sem þar standa hafa verið nýtt og bændur haft samning við ríkið um dúntekju í firðinum.

Árið 2021 var Stakkahlíð auglýst til sölu, en jörðin þykir einstök náttúruperla, tvö þúsund hektarar að stærð eins og sagði í frétt Austurfréttar af sölunni á sínum tíma. Íslandsbanki átti jörðina og dúntekjubændur úr nálægum sveitum vildu kaupa. En fór svo að ríkið virkjaði forkaupsrétt sinn að jörðinni.

Jónína segir að sveitarfélagið eigi eftir að taka afstöðu til friðlýsingar. Mynd/Framsóknarflokkurinn

Síðan þá hefur Umhverfisstofnun verið með Stakkahlíð á lista yfir þá staði sem standi til að friðlýsa og fór það mál á fullt í sumar. Á meðal þeirra sem hafa verið fylgjandi friðlýsingu er Ferðafélag Fljótsdalshéraðs sem bent hefur á að með henni myndi koma aukið fjármagn frá ríkinu, svo sem fjármagn til að halda úti landverði og fjármagn frá Minjastofnun til að lappa upp á íbúðarhúsið á jörðinni, sem enginn hefur búið í síðan árið 1967.

Dúntekjumenn óttast hins vegar að missa spón úr aski sínum verði jörðin friðlýst.

Tugir á undirskriftalista

„Umhverfisstofnun hefur látið það í ljós að það sé mikilvægt að sveitarfélagið myndi sér skoðun hvort við viljum fara í þessa friðlýsingu eða óska eftir að það verði beðið með hana. Sú umræða er að fara af stað,“ segir Jónína.

Fyrsta skrefið sé að heimastjórn Borgarfjarðar fjalli um málið og taki afstöðu. Vísi því síðan til sveitarstjórnar Múlaþings sem einnig þurfi að gera það.

Kynningar og umræður hafa þegar farið fram, meðal annars á fundi í haust. Eftir þann fund tóku dúntekjumenn sig saman og bjuggu til undirskriftalista. Var listinn, sem telur nokkra tugi nafna, lagður fram á síðasta fundi sveitarstjórnar til kynningar.

Eitt sinn bjuggu 100 manns í Loðmundarfirði. Mynd/Múlaþing

DV hafði samband við Ólaf Aðalsteinsson, sem skilaði inn listanum, en hann sagði ekki tímabært að svo stöddu að tjá sig um málið.

Hægt að stilla friðlýsingar

„Það er alveg ljóst að menn eru ekki sammála, eins og staðan er í dag,“ segir Jónína. Um friðlýsinguna séu mjög skiptar skoðanir og sumir upplifi að ferðafélagið sé að þrýsta á.

Ljóst sé að sveitarfélagið þurfi að gera greiningu á málinu og hlusta á fólk áður en tekin verður afstaða. Einnig sé mikilvægt að upplýsa samfélagið betur.

Dúntekja getur skilað miklu. Mynd/Háskóli Íslands

Meðal annars nefnir hún að friðlýsingar geti verið mismunandi. „Það er hægt að stilla vissa hluti af, hvað má gera á friðlýstum svæðum og hvað ekki,“ segir hún. Málið sé ekki klippt og skorið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur