fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Fréttir

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Ragna Gestsdóttir, Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 17. janúar 2025 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur íslenskra ungmenna hefur í tæpt ár notað tálbeituaðferðir til að lokka til sín karlmenn, sem halda að þeir séu að koma að hitta barn, og ganga síðan í skrokk á þeim. Lögreglan er uggandi yfir athæfinu. „Það er aldrei í lagi að beita aðra ofbeldi. Það þarf lítið til að skaða fórnarlambið varanlega eða jafnvel lífshættulega,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Nútíminn fjallaði um ungmennahópinn í gær og birti þrjú myndbönd sem tekin voru upp og deilt áfram á samfélagsmiðlinum Telegram. Rétt er að vara lesendur við myndböndunum. 

Heimildamaður greinir Nútímanum frá því að í hópnum á Telegram megi finna mikinn fjölda skjáskota og myndbanda. Myndböndin sem um ræðir sýna menn, sem að sögn ungmennanna, töldu sig vera að koma og hitta barn eftir samskipti karlmannsins og „barnsins“ í gegnum Snapchat. Ungmennin lokkuðu síðan mennina á afvikinn stað þar sem gengið var í skrokk á þeim með hrottalegum hætti, til að mynda með ítrekuðum spörkum og hnefahöggum í höfuð viðkomandi.

Hópurinn hefur opinberað nöfn, kennitölur og heimilisföng sumra mannanna og er talað um að margir þeirra „eigi von á heimsókn“ á næstunni.

Nútíminn segir að í myndböndum og skjáskotum sem miðillinn hafi skoðað séu myndir af karlmönnunum sem verið er að skiptast á skilaboðum við og þeir einnig beðnir um að senda myndir af sér í rauntíma svo enginn vafi leiki á að maðurinn sé sá sem hann segist vera. Nútíminn segir að svo virðist sem mennirnir sendi vinabeiðni og svo hljómi fyrsta skilaboð á þá leið að um misskilning hafi verið að ræða og ekki hafi staðið til að senda vinabeiðnina, en fyrst þau [karlmaðurinn og „barnið“] séu nú byrjuð að spjalla saman þá saki varla að halda því áfram. Af skjáskotunum að dæma virðast slíkar samræður þróast fljótt í að verða kynferðislegar og mjög ógeðfelldar á köflum.

Rétt er að taka fram að DV hefur engin gögn undir höndum hvað þetta mál varðar.

„Við gerum þetta fyrir málstaðinn og til þess að fækka sálarmorðum ungra barna, ekki vegna þess að okkur finnst gaman að berja þetta lið,“ segir einn meðlimur tálbeituhópsins.

Lögreglan varar við athæfinu

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, segir lögreglu uggandi yfir athæfi ungmennanna enda geti það valdið stórhættu. „Það er aldrei í lagi að beita aðra ofbeldi. Það þarf lítið til að skaða fórnarlambið varanlega eða jafnvel lífshættulega og þá getur einnig skapast mikil hætta þegar fórnarlömbin reyni í örvæntingu að verja sig.  Við höfum einnig dæmi um það erlendis frá að saklaust fólk er tekið í misgripum í slíkum aðgerðum ef það er svo óheppið að vera statt á tilteknum stað fyrir tilviljun, segir Ævar Pálmi.

Hann segir að aðgerðir sem þessar virðist dúkka reglulega upp á samfélagsmiðlum erlendis, þar sem netverjar reyna að fletta ofan af barnaníðingum og þá eigi þær til að berast hingað til lands. Ævar Pálmi bendir enn fremur á að aðeins lögreglan hafi heimild til þess að beita slíkum tálbeituaðgerðum og ræður almenningi alfarið frá því.

Rétta leiðin sé að senda lögreglunni ábendingar um meint ólöglegt athæfi.

Ævar Pálmi Pálmason. Mynd: Sigtryggur Ari

Búa til aðgang á Snapchat og þykjast vera barn á aldrinum 10-14 ára

Ungmennahópurinn segist í spjalli við Nútímann hafa stundað athæfið í tæpt ár. Hann notar Snapchat, þar sem hópurinn býr til trúverðugan aðgang þar sem þau þykjast vera barn á aldrinum 10 – 14 ára. „Það er ógeðslega mikið af liði sem eru að adda manni þegar það er greinilega augljóst að það sé „barn” sem á accountinn“.

Og ástæðan:

 „Einfaldlega til þess að sporna eitthvað við því að það eru actual börn sem lenda í þeim. Auk þess eru meðlimir í hópnum mínum sem hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi sem börn.

Það á EKKERT barn að þurfa að lenda í þessum sorum. Það er meira af þessu liði heldur en fólk virkilega heldur, og þó að maður viti að einhver hafi brotið á einhverjum, jafnvel barni að þá erum við oftar en ekki að lenda í því að þeir eru að gera þetta aftur.“

Aðspurð um hvort hópurinn sendi einhvern tíma skilaboð að fyrra bragði: 

 „Nei eiginlega ekki, í mestalagi  „hæ” en annars eru þeir mjög fljótir í að byrja samræðurnar um leið og maður acceptar þá.“

Segjast þau aldrei hafa lent í því að mennirnir sjái hópinn og komist undan. Þau segjast kynna málin til lögreglu:

„Já. Meðal annars vegna þess að náunginn sem hitti  „mig” á sjálfur 10 ára stelpu, ég átti að vera 14 ára, og þessi 4 ár virðast ekki skipta miklu máli í þeirra augum miðað við hvað þeir eru tilbúnir að gera við 14 ára börn.“

Áður komið upp en þá án ofbeldis

DV hefur áður fjallað um slíkar tálbeituaðferðir hérlendis. Í frétt í desember árið 2022 fjallaði DV um karlmann sem notaði tálbeituaðferðir til að góma íslenska menn sem höfðu, af samskiptum þeirra á samfélagsmiðlum að dæma, verið að sækjast eftir því að hitta börn í annarlegum tilgangi. Tálbeitan ræddi við mennina og sagðist vera 14 ára stelpa en þeir virtust ekki hafa miklar áhyggjur af aldrinum og sóttust til dæmis eftir nektarmyndum af viðkomandi.

Viðkomandi fletti svo ofan af hinum meintu níðingum á samfélagsmiðlum en beitti þá ekki líkamlegu ofbeldi.

Sjá einnig: Tálbeitan gómar annan íslenskan mann – Vildi fara í trekant með 11-12 ára stelpum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur
Fréttir
Í gær

Mogginn hnýtir í Höllu forseta – „Kurteisi kostar ekkert“

Mogginn hnýtir í Höllu forseta – „Kurteisi kostar ekkert“
Fréttir
Í gær

Ríki vara við – Segja að Norður-Kórea öðlist mikilvæga reynslu í stríðinu við Úkraínu

Ríki vara við – Segja að Norður-Kórea öðlist mikilvæga reynslu í stríðinu við Úkraínu
Fréttir
Í gær

Stjórnarformaður Play bendir á sláandi mun – Ríkið kaupir miklu fleiri flugmiða af Icelandair

Stjórnarformaður Play bendir á sláandi mun – Ríkið kaupir miklu fleiri flugmiða af Icelandair