Kona greinir frá því að hafa verið hálfnakin í klefa í World Class Laugum þegar viðgerðarmanni var fyrirvaralítið hleypt inn til að gera við klósettrúllustand. Hann hafi flissað og kíkt á konurnar þegar hann hafi gengið að klósettinu. Björn Leifsson, eigandi World Class og bróðir mannsins, segir verkið hafa verið stutt og gert til að allir geti fengið svona þjónustu.
„Ég var í klefanum í World Class Laugum í morgun hálfnakin þegar inn kemur starfsstúlka á vegum World Class og lætur vita að það sé að koma karlmaður inn í klefann að laga eitthvað á kvenna klósettinu,“ segir kona undir nafnleynd í Facebook hóp. Hefur færslan fengið mikil viðbrögð.
Sagðist konan hafa verið stödd nálægt innganginum svo hún hafi heyrt þetta ásamt um 8 til 10 öðrum nálægum konum. Hún hafi rétt náð að taka handklæðið af höfðinu til að sveipa því utan um sig áður en maðurinn gekk inn í klefann. Hún segir að ekki helmingurinn af konunum hafi heyrt þetta eða vitað af þessu. Meðal annars fullt af konum sem hafi verið í sturtu og þeim sem koma inn í klefann á meðan karlinn var að brasa á klósettinu.
„Mér finnst algjörlega galið að karlmaður komi inn í kvennaklefann á meðan stöðin er opin,“ segir konan. „Þetta var ekki akút viðgerð sem mátti ekki bíða, hann virtist vera að festa klósettrúlluhaldara á vegginn. Það væri eðlilegra að kona yrði fengin í verkið ef það þarf að laga þetta á opnunartíma stöðvarinnar eða að maðurinn sé látinn laga þetta eftir lokun.“
Konan segir að þegar maðurinn hafi gengið inn þá hafi hann haldið flissandi fyrir augun og sagt „Ég lofa að kíkja ekki stelpur“. En hafi síðan kíkt og hún horft í augun á honum.
„Mér er svo misboðið. Þegar ég var að labba út úr stöðinni í hálfpartinn sjokki þá sá ég konu vera einmitt að kvarta yfir þessu í mótttökunni,“ segir hún að lokum.
Björn Leifsson, eigandi World Class, var í viðtali við mbl.is um málið og réttlætti gjörðina.
„Það var nú enginn drepinn en þetta er tveggja til þriggja mínútna verk og yfirleitt gert þegar á þarf að halda til að allir geti fengið svona þjónustu,“ sagði hann aðspurður um hvort hefði ekki verið réttara að gera þetta verk utan opnunartíma.
„En þetta var ekki nauðsynleg viðgerð?“ spurði mbl.is.
„Nei örugglega ekki, ekki frekar en að mála eða annað,“ svaraði Björn.
Þá sagði hann rangt með farið í færslunni að margar konur hefði verið i klefanum. Hún hefði verið þarna ein, þegar bróðir hans og meðeigandi fór inn til að gera við klósettrúllustandinn.