Sólveig skrifar á Facebook að greinilega hafi leiðarahöfundur Morgunblaðsins saknað þess að skrifa um Eflingu. Því hafi hann nýtt færið og nafngreint stéttarfélagið 16 sinnum í einum stuttum leiðara.
„Þannig að hér sjáum við greinilega mikla uppsafnaða þörf. Ég hvet menn til að láta bara vaða oftar, það getur verið heilsuspillandi að bæla þarfir of mikið, þó að við eigum auðvitað öll að bæla stundum sumt.“
Sólveig segir leiðarann fjalla um hvað Efling sé nú vond að ráðast gegn fyrirtæki í löglegri starfsemi eins og gert var um helgina þegar mótmæli fóru fram fyrir utan veitingastaðinn Finnsson bistro í Kringlunni.
„Mogginn segir að stjórn Virðingar hafni því alfarið að vera gervi-stéttarfélag og ef að Mogginn veit eitthvað þá er það að ef að stjórn Virðingar segir eitthvað þá er það satt. Ólíkt því þegar að Efling, SGS, ASÍ, BSRB og BHM segja eitthvað; þá er það ósatt. Sérstaklega þegar að þau eru sammála um eitthvað; þegar að fulltrúar 90% alls vinnandi fólks á Íslandi, ríflega 200.000 einstaklingar eru 100% sammála um tiltekið mál þá er það sérstaklega ósatt og í alla staði ömurlegur málflutningur. Þá veit Mogginn að betra er að treysta á yfirlýsingar sirka 3 atvinnurekenda sem hafa stofnað sitt eigið stéttarfélag, og launaðra útsendara þeirra, og flýta sér að skrifa um það leiðara.“
Morgunblaðið skrifi að þar sem Efling neitaði að semja við SVEIT hafi þeir neyðst til að leita annað. Sólveig og Efling hafa, eins og þekkt er, sakað SVEIT um að hafa stofnað stéttarfélagið Virðingu og því í raun samið við sjálfa sig. Sólveig bendir á hvað það er galin framkvæmd í smá viðlíkingu:
„ Ef að ég vil gera samning um að nágranni minn leyfi mér að nota gróðurhúsið sitt, af því að mig langar svo í gróðurhús, en hann vill ekki gera við mig slíkan samning, þá geri ég auðvitað sjálf samning við sjálfa mig um að ég megi nota gróðurhúsið hans. Obvi – og hann er bitch og asni fyrir að væla og getur bara reynt að stoppa mig ef hann vill.“
Sólveig tekur fram að Efling hafi alveg verið til í að semja við SVEIT en það hafi þó ekki komið til greina að semja um verri kjör en Efling hafði þegar samið um við Samtök atvinnulífsins. Þetta virtust forsvarsmenn SVEIT ekki skilja og því fór sem fór.
Sólveig segir leiðara Morgunblaðsins afhjúpa hverra hagsmuna miðillinn gengur. Það gleður hana þegar gríman fellur. Hún vonar að Morgunblaðið reyni ekki að bæla þessar þarfir sínar lengur og veigri sér ekki við að tala niður til verkalýðshreyfingarinnar.
„Sannleikurinn er að fátt hefur hresst mig meira við á síðustu árum í mínum ýmsu og fjölbreyttu mæðum en afturhalds-gjammið af ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins. Plís ekki hætta Moggi, blástu áfram í litla, ljóta lúðurinn þinn, mér og félögum mínum til dægradvalar og smotteríis skemmtunar. Líf okkar er oft erfitt og dagarnir langir og við þurfum sannarlega á oggupoggu upplyftingu á halda.“