Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gaiman er sakaður um alvarlegt kynferðisbrot, en í sumar stigu fimm konur fram og sökuðu hann um brot.
Gaiman er höfundur bóka á borð við The Sandman, American Gods og Coraline og þá samdi hann Good Omens ásamt Terry Pratchett. Samnefnd þáttaröð byggð á skáldsögunni var frumsýnd árið 2019 en ásakanirnar í fyrra urðu til þess að hætt var við framleiðslu á þriðju þáttaröðinni.
Vulture-tímaritið greindi frá nýjustu ásökununum í vikunni en barnfóstran fyrrverandi, Scarlett Pavlovich, segir að Gaiman hafi nauðgað henni í heitum potti þann 4. febrúar 2022. Var hún barnfóstra sonar hans sem hann á með fyrrverandi eiginkonu sinni, Amöndu Palmer.
Í umfjölluninni er brotinu lýst í smáatriðum og segir Pavlovich að hún hafi ítrekað sagt nei við hann en hann haldið áfram uns hann hafði sáðlát. Hann hafi einnig viðhaft sömu hegðun í önnur skipti og talað niðrandi til hennar og meðal annars kallað hana „þræl“.
Gaiman hefur staðfastlega neitað öllum ásökunum um kynferðisbrot.