Martin Zubimendi er að ganga í raðir Arsenal næsta sumar. Allir helstu miðlar segja frá þessu.
Hinn 25 ára gamli Zubimendi er á mála hjá Real Sociedad, en hann hefur verið orðaður þaðan í töluverðan tíma. Hann hafnaði því að ganga í raðir Liverpool síðasta sumar og hefur einnig verið orðaður við Manchester City í vetur í kjölfar meiðsla Rodri.
Zubimendi er nú á leið til Arsenal en ekki fyrr en í sumar, þar sem Sociedad vill halda honum þar til þá.
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefur fylgst með Zubimendi lengi og mun félagið nú virkja 51 milljóna punda klásúlu í samningi hans.
Viðræður eru vel á veg komnar samkvæmt helstu miðlum og má því fastlega gera ráð fyrir að Zubimendi verði leikmaður Arsenal í sumar.