Töluverðar jarðhræringar hafa verið í Bárðarbungu í Vatnajökli og vel mögulegt að það endi með eldgosi í sjálfri eldstöðinni eða í nágrenninu. Bárðarbunga er ein öflugasta eldstöð landsins og komi upp eldgos þar sem verður nægilega öflugt til að ná í gegnum þykkan ísinn sem er ofan á eldstöðinni er ljóst að áhrifin á umhverfið geta orðið töluverð. Til að mynda gætu orðið truflanir á rafmagnsframleiðslu og fjarskiptum.
Upplýsingar um möguleg áhrif af eldgosi í Bárðarbungu er að finna í Íslensku eldfjallavefsjánni sem Veðurstofan, Háskóli Íslands og Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra halda úti.
Áhrifin yrðu að vonum mest næst Bárðarbungu þar sem engin mannabyggð er. Í innan við 30 kílómetra fjarlægð frá gosupptökum gæti orðið mikið gjóskufall í sprengigosi, þykkt gjóskunnar gæti verið allt frá 20 sentímetrum upp í 10 metra. Samgöngur á landi gætu stöðvast í stóru gosi. Í miklu gjóskufalli gætu fjarskipti truflast eða stöðvast, rafmagnslínur skemmst og truflun orðið á rafmagnsframleiðslu. Algjört myrkur getur varað klukkustundum saman undir gosmekki, samkvæmt eldfjallavefsjánni.
Líklegt er einnig að töluvert jökulhlaup myndi verða en í eldfjallavefsjánni segir að jökulhlaup hafi orðið á síðustu 1000 árum sem hafi náð 3000-30.000 rúmmetra á sekúndu í rennsli. Mun stærri jökulhlaup (mesta rennsli meira en 100.000 rúmmetrar á sekúndu) urðu á forsögulegum tíma.
Einnig væru líkur á gasútstreymi og gosmóðu þá einkum brennisteinsdíoxíði ( SO2 ) úr sprungugosum sem myndi valda mengun í lofti, láði og legi.
Svæði sem eru í 30 til 150 kílómetra fjarlægð frá mögulegum gosupptökum í Bárðarbungu eru í eldfjallavefsjánni kölluð miðlæg svæði. Þar gæti orðið gjóskufall í sprengigosum og algjört myrkur klukkustundum saman. Samgöngur og fjarskipti yrðu fyrir truflunum.
Á miðlægum svæðum gætu einnig gasútstreymi og gosmóða, einkum frá stórum sprungugosum, valdið mengun í lofti, láði og legi. Þar gæti einnig orðið jökulhlaup í stórum jökulám vegna gosa undir jökli og valdið skemmdum á landi og gróðri.
Um fjarlæg svæði sem eru í meira en 150 kílómetra fjarlægð frá mögulegum gosupptökum í Bárðarbungu segir í vefsjánni að í stóru sprengigosi gæti orðið gosmökkur á flugleiðum. Sömuleiðið gæti gasútstreymi og gosmóða í stórum gosum valdið loftmengun.